Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 18. júlí 2021 06:00
Victor Pálsson
Hákon stefnir á að verða númer eitt - Einn sá efnilegasti í Skandinavíu
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Hákon Rafn Valdimarsson er genginn í raðir sænska liðsins IF Elfsborg en hann kemur til félagsins frá Gróttu.

Hákon þykir vera gríðarlega efnilegur markvörður og vakti athygli með Gróttu áður en hann tók skrefið erlendis.

Markvörðurinn var í viðtali við heimasíðu Elfsborg í gær og er spenntur fyrir komandi verkefni.

„Þetta hefur gengið mjög vel fyrir sig hingað til. Leikmennirnir og félagið hafa tekið vel á móti mér svo í heildina er þetta mjög gott," sagði Hákon.

Hákon var svo spurður út í eigin styrkleika sem markvörður en hann er með nokkra spennandi eiginleika.

„Ég myndi segja að ég sé sterkur í boxinu og góður að finna samherja. Ég myndi lýsa sjálfum mér sem markverði sem hugsar mjög vandlega um næstu ákvörðun."

Hver er fyrirmyndin?

„Sá leikmaður sem ég fylgist aðeins aukalega með er Manuel Neuer hjá Bayern Munchen. Hann er framúrskarandi í flestu sem hann gerir en þá helst hversu gáfaður hann er þegar kemur að leiknum."

Hákon segir jafnframt að markmiðið sé að komast inn í liðið og stefnir á að verða markvörður númer eitt.

„Markmiðið er að komast vel inn í liðið og kynnast hópnum. Svo vil ég leggja hart að mér til að þróa minn leik og vonandi í kjölfarið taka skrefið til að gerast aðalmarkvörður Elfsborg. Við tökum einn hlut í einu og ég vil sýna það að ég á heima hér."

Þjálfari Elfsborg, Stefan Andreasson, er spenntur fyrir komu íslenska markmannsins og var hrifinn af honum í lok árs 2020.

„Þegar Hákon kom og heimsótti okkur í nóvember 2020 þá vorum við mjög hrifnir af honum. Eftir góða frammistöðu með Gróttu ákváðum við að hann myndi ganga í raðir liðsins þegar glugginn opnaði."

„Að við getum fengið einn efnilegasta markvörð Skandinavíu er mjög gott og sýnir það að við erum í umhverfi þar sem leikmenn vilja spila."

„Hákon skrifaði undir til 2025 og er tilbúinn til leiks strax."
Athugasemdir
banner
banner
banner