Lestu um leikinn: Þór 1 - 1 Fjölnir
„Það reynist okkur erfitt að vinna fótboltaleiki þessar vikurnar. Við höfum lítið við eitt stig að gera, við þurfum að vinna en það tókst ekki. Við gerðum okkur erfiðara fyrir að þeir hafi fengið rautt spjald, þeir lágu neðarlega 11 á móti 11 en þegar þeir urðu tíu þá lögðust þeir mjög neðarlega. Þessi grasvöllur er mjög lélegur og það er erfitt að opna lið sem liggur með allt liðið til baka þannig þetta reyndist erfitt," sagði Úlfur Arnar.
Úlfur var ánægður með byrjun Fjölnis liðsins í leiknum.
„Svo skorar Birkir (Heimisson) alveg stórkostlegt mark, geðveikt skot hjá honum en við hefðum þurft að vera nær honum. Það var gegn gangi leiksins. Svo byrjum við sterkt í seinni hálfleik og skorum strax eftir 30 sekúndur en eftir það var eins og menn héldu að þetta komi að sjálfum sér. Mér finnst við slaka á og ég var ekki alveg nógu ánægður með það hvernig við spilum seinni hálfleikinn," sagði Úlfur.
Birkir fékk að líta rauða spjaldið þegar hann fór ansi harkalega í Mána Austmann undir lok fyrri hálfleiks.
„Mesta rauða spjald sem ég hef séð. Hann kemur á fleygiferð með olnbogann beint í andlitið á Mána. Það er til skammar hvernig þeir reyna að mótmæla því og bregðast við. Liðstjórinn spurði hvort ég vildi koma í slagsmál við sig sem er fáránlegt. Ég vona að þetta verði skoðað, þetta á að vera nokkra leikja bann, þetta er ofbeldi," sagði Úlfur.