Fjórum síðustu leikjum kvöldsins er lokið í undankeppni fyrir Evrópumótið á næsta ári, þar sem Holland, Rúmenía og Sviss tryggðu sér sæti á lokamótinu í Þýskalandi.
Holland lagði Írland að velli með einu marki gegn engu, þar sem Wout Weghorst skoraði á tólftu mínútu og dugði það út leikinn. Hollendingar voru talsvert sterkari aðilinn og komust nokkrum sinnum nálægt því að tvöfalda forystuna, á meðan Írar ógnuðu lítið sem ekkert.
Rúmenía lagði þá Ísrael að velli til að binda endi á vonir þeirra um að komast á EM í gegnum undankeppnina. Sviss gerði um leið jafntefli við Kósovó og endar í öðru sæti riðilsins sem þýðir að Rúmenar eiga möguleika á að fá auðveldari riðil á lokamótinu.
George Puscas og Ianis Hagi gerðu mörk Rúmena eftir að hafa lent undir snemma leiks. Eran Zahavi kom Ísrael yfir snemma leiks en Rúmenar voru betri og verðskulduðu sigurinn.
Ruben Vargas skoraði þá eina mark Sviss í 1-1 jafntefli gegn Kósovó, þrátt fyrir yfirburði Svisslendinga.
Að lokum voru Frakkar með flugeldasýningu á heimavelli gegn Gíbraltar, þar sem Kylian Mbappé lék allan leikinn og skoraði þrennu - auk þess að leggja önnur þrjú mörk upp.
Olivier Giroud kom inn af bekknum og skoraði tvennu í sigrinum og þá setti Kingsley Coman einnig tvö, á meðan Ousmane Dembélé, Adrien Rabiot, Jonathan Clauss, Marcus Thuram og Youssouf Fofana gerðu eitt mark hver.
Táningurinn Warren Zaïre-Emery komst einnig á blað áður en hann meiddist, en fyrsta mark leiksins var sjálfsmark.
Frakkar eru löngu búnir að tryggja sér sæti á lokamóti EM og fara upp úr B-riðli ásamt Hollendingum.
Þess má geta að þetta er stærsti sigur í sögu franska landsliðsins.
Holland 1 - 0 Írland
1-0 Wout Weghorst ('12 )
Sviss 1 - 1 Kósovó
1-0 Ruben Vargas ('47 )
1-1 Muhamet Hyseni ('82 )
Ísrael 1 - 2 Rúmenía
1-0 Eran Zahavi ('2 )
1-1 George Puscas ('10 )
1-2 Ianis Hagi ('63 )
Rautt spjald: Valentin Mihaila, Rúmenía ('85)
Frakkland 14 - 0 Gíbraltar
1-0 Ethan Santos ('3 , sjálfsmark)
2-0 Marcus Thuram ('4 )
3-0 Warren Zaire Emery ('16 )
4-0 Kylian Mbappe ('30 , víti)
5-0 Jonathan Clauss ('34 )
6-0 Kingsley Coman ('36 )
7-0 Youssouf Fofana ('37 )
8-0 Adrien Rabiot ('64 )
9-0 Kingsley Coman ('66 )
10-0 Ousmane Dembele ('73 )
11-0 Kylian Mbappe ('75 )
12-0 Kylian Mbappe ('82 )
13-0 Olivier Giroud ('89 )
14-0 Olivier Giroud ('90 )
Rautt spjald: Ethan Santos, Gibraltar ('18)
Athugasemdir