Þegar Þjóðverjinn Kai Havertz skoraði úr vítaspyrnu í gær og kom Chelsea í forystu gegn Everton þá gerði hann grín að Pickford með fagnaðarlátum sínum.
Fyrir vítaspyrnuna reyndi Jordan Pickford að taka Havertz á taugum og því ákvað sóknarmaðurinn að svara fyrir sig eftir að hann skoraði örugglega af vítapunktinum.
Graham Potter, stjóri Chelsea, var hins vegar ekki hrifinn af þessum tilburðum hjá Havertz.
„Þegar leikmenn skora, þá gerist stundum eitthvað hjá þeim sem þeir ráða ekki við," sagði Potter.
„Ég skoraði ekki mörg mörk svo ég þekki þetta ekki sjálfur. Þú ættir að njóta þín í fagnaðarlátum, ég held að andstæðingurinn ætti ekki að vera dreginn í þau. Það er mitt mat á þessu."
Ellis Simms jafnaði hins vegar metin fyrir Everton seint í leiknum og tryggði Sean Dyche og lærisveinum hans mikilvægt stig á Stamford Bridge.