þri 19. maí 2020 21:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gerir ráð fyrir því að fleiri leikmenn geri það sama og Deeney
Gary Neville og Jamie Carragher.
Gary Neville og Jamie Carragher.
Mynd: Getty Images
Troy Deeney fagnar marki með Watford.
Troy Deeney fagnar marki með Watford.
Mynd: Getty Images
Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United sem starfar í dag sem sparkspekingur á Sky Sports, telur að fleiri leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni gætu fylgt í fótspor Troy Deeney með því að neita að mæta til æfinga.

Félög ensku úrvalsdeildarinnar hófu í dag æfingar í litlum hópum eftir langt hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Er þetta skref í áttina að því að hefja keppni aftur í deildinni.

Deeney, fyrirliði Watford, hefur neitað að mæta til æfinga í vikunni af ótta við kórónuveiruna. „Sonur minn er fimm mánaða og hann á við öndunarvandamál að stríða. Ég vil ekki koma heim og setja hann í hættu," sagði Deeney.

Neville segist vita til þess að fleiri leikmenn hugsi eins og Deeney. „Ég veit að það eru úrvalsdeildarfélög með fimm eða sex leikmenn sem vilja ekki snúa aftur eða líður ekki vel með áætlunina sem er í gangi," sagði Neville í The Football Show á Sky Sports.

„Það eru fleiri vandamál sem þarf að leysa á næstu vikum."

Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og samstarfsmaður Neville, telur að það komi ekki í veg fyrir að enska úrvalsdeildin muni hefjast ef að einhverjir leikmenn vilja ekki snúa aftur. „Ég held að það stoppi ekki ensku úrvalsdeildina. Ef að gríðarlegur fjöldi leikmanna myndi ekki vilja mæta aftur þá væri það gríðarlegt vandamál. En ef það eru bara einn eða tveir leikmenn í hverju liði þá er það bara eitthvað sem verður að samþykkja og reyna að sannfæra þá svo síðar meir."

Carragher kveðst mjög öruggur á því að yfirstandandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni fari aftur í gang, en talað hefur verið um mögulega endurkomu í næsta mánuði.

Rúmlega 35 þúsund manns hafa látist í Bretlandi vegna kórónuveirunnar og hafa tæplega 249 þúsund smitast þar í landi.
Athugasemdir
banner
banner