Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   sun 19. maí 2024 21:30
Ívan Guðjón Baldursson
Kortrijk vann fyrri umspilsleikinn - Ísak Andri lagði upp
Mynd: Getty Images
Mynd: Guðmundur Svansson
Mynd: Cracovia
Það var nóg um að vera í evrópska fótboltanum í dag og komu þónokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins.

Í Belgíu stýrði Freyr Alexandersson sínum mönnum í Kortrijk til sigurs í fyrri úrslitaleik liðsins gegn Lommel SK um sæti í efstu deild belgíska boltans næsta haust.

Kortrijk vann 0-1 á útivelli í kvöld og er seinni leikurinn á dagskrá að viku liðinni, næsta sunnudag, á heimavelli Kortrijk. Lærlingum Freys nægir jafntefli þar til að bjarga sér frá falli úr efstu deild.

Hörður Björgvin Magnússon var þá ekki með Panathinaikos í dag vegna meiðsla, er liðið komst hársbreidd frá því að stela síðasta evrópusæti grísku deildarinnar af Olympiakos.

Panathinaikos þurfti sigur gegn Olympiakos í lokaumferðinni og leiddi 2-0 eftir 60 mínútur en tókst ekki að sigra. Daniel Podence og Stevan Jovetic lögðu upp fyrir hvorn annan á lokakaflanum til að jafna leikinn og fékk Podence svo að líta rauða spjaldið á 89. mínútu.

Lokatölur urðu þó 2-2 og er Olympiakos öruggt með sæti í forkeppni Sambandsdeildarinnar á meðan Panathinaikos situr eftir í fjórða sæti. Liðsfélagar Harðar Björgvins geta þó tryggt sér sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar með sigri í lokaleik gríska tímabilsins - úrslitaleik gríska bikarsins. Þar spilar Panathinaikos við Aris Thessaloniki.

Í portúgalska boltanum varði Elías Rafn Ólafsson mark Mafra í 2-0 tapi gegn Nacional. Mafra endar um miðja B-deild þar í landi, með 44 stig úr 34 umferðum.

Ísak Andri Sigurgeirsson var þá í byrjunarliði Norrköping í efstu deild sænska boltans og lagði hann upp jöfnunarmark á 25. mínútu. Arnór Ingvi Traustason var einnig í byrjunarliði Norrköping.

Norrköping endaði þó á að tapa leiknum 2-1 á útivelli gegn Brommapojkarna og er Íslendingaliðið aðeins komið með 11 stig eftir 10 umferðir.

Andri Fannar Baldursson sat þá á bekknum allan fyrri hálfleikinn í tapi Elfsborg á útivelli gegn GAIS. Staðan var 2-1 fyrir GAIS í leikhlé og tókst Elfsborg ekki að jafna í síðari hálfleik, en Elfsborg situr eftir um miðja deild með 13 stig.

Í næstefstu deild í Svíþjóð mættu tvö Íslendingalið til leiks en enginn Íslendingur var í hóp. Varberg tapaði á útivelli án Óskars Tors Sverrissonar og þá var Valgeir Valgeirsson ekki með Örebro í markalausu jafntefli.

Að lokum var Davíð Kristján Ólafsson í byrjunarliði Cracovia sem vann frábæran sigur gegn Rakow í efstu deild pólska boltans.

Sigurinn bjargar Cracovia endanlega frá fallbaráttunni og kom sigurinn gegn sterkum andstæðingum, sem voru í naumri baráttu um evrópusæti en eru búnir að missa af því eftir þetta tap.

Lommel SK 0 - 1 Kortrijk

Panathinaikos 2 - 2 Olympiakos

Nacional 2 - 0 Mafra

Brommapojkarna 2 - 1 Norrköping

GAIS 2 - 1 Elfsborg

Sandviken 3 - 1 Varberg

Landskrona 0 - 0 Orebro

Cracovia 2 - 0 Rakow

Athugasemdir
banner