„Mikilvægur sigur og gaman að vinna. Það var það sem við lögðum upp með og gott að ná því,“ sagði Orri Hrafn Kjartansson, einn nýjasti leikmaður KR, eftir sinn fyrsta leik fyrir Vesturbæjarfélagið.
Lestu um leikinn: KR 2 - 1 Afturelding
KR lenti undir snemma leiks en komu til baka og sóttu stigin þrjú. Aðspurður hvernig tilfinningin hafi verið inn á vellinum segir hann:
„Mér fannst eiginlega bara ótrúlega að við höfum ekki náð að skora fyrr. Við vorum staðráðnir í að halda áfram sama hvað gengi á og mér fannst markið liggja í loftinu alveg frá því að Afturelding skoruðu þannig að það var gott að það tókst.“
Orri kom í KR í glugganum frá Val þar sem hann var búinn að vera frá árinu 2022 fyrir utan stutta viðkomu í Fylki, uppeldisfélagið, á láni í lok síðasta tímabils. Hvernig metur hann tímann sinn hjá Val?
„Ég er bara sáttur, lærði helling og var þar í góðum hóp. Nú er ég bara kominn í nýtt verkefni og með hausinn í því.“
Voru fleiri lið sem komu til greina en KR?
„Nei ég get ekki sagt það. Það var eitthvað (lið sem heyrðu í honum) en hausinn var á KR frá fyrsta augnabliki.“