Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Man City, fann til með stuðningsmönnum félagsins eftir markalausa jafnteflið gegn Southampton í gær en þetta kemur allt í kjölfar ummæla sem hann lét falla eftir Meistaradeildarsigurinn gegn RB Leipzig á dögunum.
City vann Leipzig 6-3 í fyrsta leik liðsins í riðlakeppninni í ár en eftir leikinn bað hann um betri stuðning fyrir leikinn gegn Southampton, ummæli sem féllu ekki vel í kramið hjá stuðningsmönnunum.
Kevin Parker, formaður stuðningsmannafélags City, var vonsvikinn með þessi ummæli Guardiola og bað stjórann vinsamlegast um að halda sig bara við þjálfun.
Guardiola varðist því með að segja að þessi ummæli hafi verið misskilin. Hann sá ekkert að því sem hann sagði en fann fyrir sektarkennd eftir markalausa jafnteflið í gær.
„Alltaf þegar leikurinn er ekki góður þá finn ég til með þeim. Þeir koma hingað til að sjá sýningu og til að sjá alvöru leik en þegar það gerist ekki þá finn ég fyrir sektarkennd því við spiluðum ekki vel," sagði Guardiola eftir leikinn í gær.
Athugasemdir