Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
   mið 20. apríl 2022 23:58
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Fyrsti keppnisleikur Olivers í þrjú ár -„Ólst upp við mikla leiðtoga"
Myndir úr leiknum í gær
Myndir úr leiknum í gær
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oliver Stefánsson, nítján ára, spilaði í gær sinn fyrsta keppnisleik í þrjú ár þegar hann lék fyrri hálfleikinn með ÍA gegn Stjörnunni í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Oliver hefur verið nær samfleytt frá síðan vorið 2019 vegna meiðsla. Þá spilaði hann með U17 í lokakeppni EM.

Oliver er á láni hjá ÍA frá sænska félaginu Norrköping. Hann ræddi við Fótbolta.net í dag.

Lestu um leikinn: Stjarnan 2 -  2 ÍA

„Tilfinningin var mjög góð, smá stress og mikil spenna. Síðasti mótsleikur var á EM 2019 en svo hafa þetta bara verið æfingaleikir og meiðsli. Þetta var þvílík spenna og geggjað að komast aftur á völlinn," sagði Oliver.

„Skrokkurinn er fínn, ég spilaði bara hálfleik því við erum og verðum að fylgja prógrami þótt maður vilji og líður eins og maður geti spilað meira. Kjartan stjórnar þessu og segir hversu mikið ég má gera. Í dag, daginn eftir leik, þá er ég bara fínn."

Skiptir Norrköping sér að því hversu mikið þú spilar? „Nei, þeir bara búast við því að ég spili þegar ég er heill en eru annars ekki með nein afskipti."

Það var ljóst í desember að ÍA ætlaði sér að reyna fá Oliver í sínar raðir. Staðfestingin á lánssamningnum tók þó talsverðan tíma. Hvers vegna?

„Það var smá vesen á mér, ég fékk smá í mjöðmina og það var ekki alveg vitað hver staðan á mér var á þeim tímapunkti. Það spilaði inn í og þess vegna dróst þetta aðeins á langinn. Ég var mikið hjá læknum að tékka hvort ég gæti spilað fyrri hluta tímabilsins. Ég er ekki alveg kominn í gang og það var aðeins fram og til baka hvernig ég yrði í sumar og hvenær ég yrði klár. Ég er ekki ennþá orðinn 100% klár," sagði Oliver og hló.

„Ég býst við því að geta spilað meira og meira þegar líður á. Við byggjum ofan á þetta og tökum skrefið fram á við þegar ég verð klár. Ég vonast eftir því að spila fullan leik eftir nokkrar umferðir."

Oliver spilaði sem djúpur miðjumaður í gær en er þekktari fyrir sín verk sem miðvörður. „Ég var aðeins djúpur hjá Norrköping líka og spilaði æfingaleik með U21 árs liðinu þar og eitthvað á æfingum með A-liðinu. Ég get leyst þessa stöðu og þjálfarinn vildi hafa mig í þessari stöðu. Ég spila bara þar sem þjálfarinn segir mér að spila."

Þeir sem voru á leiknum í Garðabænum í gær tóku eftir því að Oliver var duglegur að segja sínum liðsfélögum til og hvetja þá áfram í leiknum. Hann var á sínum tíma fyrirliði í yngri landsliðunum. „Gísli upp í þetta. Þú hefur þennan bolta þú ert miklu betri en hann," mátti t.d. heyra í leiknum og var Oliver þá að hvetja Gísla Laxdal í návígi. Hefur alltaf verið mikil leiðtogahæfni í þér?

„Mér finnst það sjálfur, ég ólst upp við þetta. Ég er alinn upp við það að pabbi og fjölskyldan í kring öskra menn áfram. Maður ólst upp við mikla leiðtoga, Óla Þórðar, pabba [Stefán Þórðarson], Teit frænda og alla þessa svaka karaktera. Ég held að þeir hafi byggt mig upp og ég tekið það til mín og reyni að hjálpa liðinu. Maður horfði á þá og reyndi að læra af þeim, gerir eins vel og maður getur fyrir liðið og ef þetta hjálpar þá gerir maður það."

„Ég og Jón Þór höfum rætt mikið saman um að nýta þessa stjórnun. Við viljum stjórna miðjunni og reyna tengja vörnina og sóknina saman. Það er svolítið hugmyndin með því að spila með djúpan miðjumann. Sá aðili á að tengja saman línurnar. Við ætluðum að vera mjög þéttir og mér fannst við virka mjög vel í gær,"
sagði Oliver. Hann vonast til að vera með í næsta leik sem fram fer á Norðurálsvellinum á Akranesi á sunnudag. Þá koma Íslandsmeistararnir í heimsókn.

„Ég vona það, ég vona að skrokkurinn verður heill og vonast til þess að spila."

Sjá einnig:
Stefán hrósar Oliver: Mjög stoltur af því hvernig hann hefur tæklað þetta
„Hefur verið erfitt á tímum en aldrei verið spurning hvað ég vil gera í mínu lífi"
Athugasemdir
banner
banner
banner