Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   sun 21. mars 2021 18:53
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enski bikarinn: Leicester sló Man Utd úr leik
Leicester City 3 - 1 Manchester Utd
1-0 Kelechi Iheanacho ('24 )
1-1 Mason Greenwood ('38 )
2-1 Youri Tielemans ('52 )
3-1 Kelechi Iheanacho ('78 )

Leicester varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sig inn í undanúrslit enska bikarsins.

Leicester tók á móti Manchester United og það voru heimamenn sem byrjuðu betur. Jamie Vardy komst tvisvar í ágæta stöðu áður en Iheanacho kom Leicester yfir. Man Utd reyndi að spila boltanum úr vörninni en það misheppnaðist hræðilega. Fred átti hræðilega sendingu til baka sem Iheanacho komst inn í. Nígeríumaðurinn gerði engin mistök og skoraði.

Iheanacho hefur verið frábær að undanförnu og hann átti mjög góðan leik í dag.

Gestirnir frá Manchester jöfnuðu metin á 38. mínútu og var það Mason Greenwood sem skoraði. Greenwood skoraði eftir sendingu frá Paul Pogba. Donny van de Beek lét boltann fara í gegnum klof sitt og boltinn barst til Greenwood sem skoraði.

Staðan var 1-1 í hálfleik. Það var ekki mikið búið af seinni hálfleiknum þegar Leicester tók forystuna aftur. Youri Tielemans fékk að hlaupa óáreittur að markinu og átti skot sem Dean Henderson náði ekki að koma vörnum við.

Slakur varnarleikur hjá Man Utd og aftur var það þannig á 78. mínútu. United hefur gengið illa að verjast föstum leikatriðum á tímabilinu og Iheanacho skoraði þriðja mark Leicester eftir hornspyrnu þegar 12 mínútur af venjulegum leiktíma.

Þriðja markið gerði út um leikinn. Man Utd skapaði sér ekki mörg góð færi í leiknum og varðist illa. Leicester vann verðskuldað og mun mæta Southampton í undanúrslitum. Það var dregið í hálfleiks þessa leik en hér fyrir neðan má sjá hvernig undanúrslitin verða.

Svona eru undanúrslitin:
Leicester - Southampton
Chelsea - Manchester City
Athugasemdir