Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 21. mars 2021 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Györ, Ungverjaland
„Var ósáttur við þetta þá en varð að virða vilja félagsins"
Þetta var sameiginleg ákvörðun og Keflavík meikar mest sens akkúrat núna.
Þetta var sameiginleg ákvörðun og Keflavík meikar mest sens akkúrat núna.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Ég þekki alla strákana, þetta er flott lið og þeir eru á uppleið.
Ég þekki alla strákana, þetta er flott lið og þeir eru á uppleið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rúnar gjörsamlega frábær
Rúnar gjörsamlega frábær
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á föstudag varð ljóst að varnarmaðurinn Ísak Óli Ólafsson mun leika með Keflavík í sumar. Hann kemur til Keflavíkur að láni frá SönderjyskE í Danmörku. Ísak gekk í raðir danska félagsins frá einmitt Keflavík sumarið 2019.

Ísak mætir til Keflavíkur eftir að riðlakeppni Evrópumóts U21 árs liða lýkur. Í vikunni kom í ljós að Ísak væri í leikmannahópi Íslands á mótinu. Fótbolti.net heyrði í Ísaki í dag og spurði hann út í skiptin.

Ísak um U21:
Víruð stemning hjá U21 - „Allt orðnir bestu vinir mínir þessir gæjar"

Að Keflavík, hvernig kom það til að þú ert kominn í Keflavík á láni?

„Ég reyndi að fara á láni í janúar en þá gekk það ekki upp, félagið vildi fá of háa upphæð fyrir mig. Þetta var algjört rugl í janúar, það dó út og íslensk lið spurðu um mig í kjölfarið. Ég og félagið vorum sammála um að ég þyrfti að spila meira. Ég var á þeirri skoðun að ég ætti að fá að spila meira hérna en þeir vildu meina að ég þyrfti að öðlast meiri reynslu áður en ég færi á það svið."

„Þetta var sameiginleg ákvörðun og Keflavík meikar mest sens akkúrat núna. Ég þekki alla strákana, þetta er flott lið og þeir eru á uppleið. Ég þekki líka þjálfarana vel, þeir Siggi Raggi og Eysteinn eru flottir og ég er spenntur að vinna með þeim. Það voru líka einhver tilboð frá félögum hérna á Norðurlöndunum en þá hefði ég getað lent í því sama og hjá SönderjyskE.“


Þú í raun gengur inn í umhverfi sem þú þekkir hjá Keflavík.

„Já, í raun og veru. Covid hefur sett stórt strik í reikninginn í hlutina hjá mér hérna úti. Það komu nýir eigendur sem eiga fullt, fullt af peningum og eru búnir að dæla inn í félagið. Það er margt sem spilar inn í og margir hlutir sem eru búnir að vera skrítnir.“

Hvenær í vetur sástu að þú yrðir í litlu hlutverki, sem þróast svo út í ekkert hlutverk núna eftri áramót?

„Að hluta til eftir eitt landsliðsverkefnið í haust. Ég fékk matareitrun eftir eitt verkefnið og glugginn í Evrópu var ennþá opinn út af covid. Þegar ég fékk matareitrunina drifu þeir sig í því að kaupa annan miðvörð. Ég var á þeim tíma næstur inn, það vantaði hafsent af því ég var veikur. Ég veit ekki hvort hann hefði verið keyptur ef ég hefði ekki veikst á þessum tímapunkti, það var alltaf í einhverjum plönum að fá annan miðvörð."

„Svo kom það fullkomlega í ljós að mitt hlutverk yrði lítið sem ekkert þegar þjálfarinn breytti í fjögurra manna vörn, við vorum búnir að spila með þriggja manna miðvarðalínu síðan ég kom. Það var þá sem ég fattaði að ég þyrfti að finna mér stað þar sem ég gæti fengið að spila.“

„Mér finnst ég vera betri en allir hinir hafsentarnir í liðinu en þeir eru allir eldri og hans menn, þjálfarinn fékk þá til félagsins.“


Komum aðeins inn á einn leik sem þú spilaðir með SönderjyskE. Þú spilaðir ekki gegn Ítalíu í nóvember þar sem SönderjyskE átti bikarleik. Var það þinn vilji að spila þennan bikarleik?

„Nei, ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var það ekki mín ákvörðun að fara ekki í þennan landsleik. Ég fékk engu um það ráðið og félagið tók þá ákvörðun, ég reyndi að fá hitt því ég vil fyrst og fremst spila með landsliðinu. Ég var ósáttur við þetta þá en vilji félagsins var að ég myndi spila bikarleikinn og það verður að virða það.“

Horfðiru á leikinn í gær hjá Keflavík?
Keflavík vann gegn Víkingi í 8-liða úrslitum Lengjubikarsins.

„Já, ég horfði og þetta var geggjaður leikur hjá þeim, rosalega eru þeir flottir. Rúnar gjörsamlega frábær og líka kóngurinn frá Ástralíu," sagði Ísak.

Ísak um U21:
Víruð stemning hjá U21 - „Allt orðnir bestu vinir mínir þessir gæjar"
Athugasemdir
banner
banner