Franski sóknartengiliðurinn Désiré Doué hefur engan áhuga á því að fara frá Paris Saint-Germain en þetta segir belgíski blaðamaðurinn Sacha Tavolieiri í dag.
Öll stærstu félög heims hafa fylgst náið með Doué á þessari leiktíð, sem er hans fyrsta hjá PSG.
Doué er 19 ára gamall og getur spilað á vængnum og á miðjunni, en hann var keyptur frá Rennes á 50 milljónir evra síðasta sumar.
Frakkinn hefur komið að 25 mörkum í öllum keppnum á þessu tímabili og verið einn af þeim betri í Evrópuboltanum á leiktíðinni.
Samkvæmt Tavolieri hefur Manchester City sýnt honum mikinn áhuga, en Doué er reiðubúinn að hafna enska félaginu og halda áfram að byggja ofan á það sem hann hefur verið að gera hjá PSG.
Leikmaðurinn gerði samning við PSG til 2029 en félagið er að undirbúa nýjar viðræður sem myndi framlengja samning hans um eitt ár.
Doué, sem var valinn besti leikmaður mars mánaðar í frönsku deildinni, varð deildarmeistari með PSG á dögunum og vann þá Ofurbikarinn í byrjun árs.
Hann lék sinn fyrsta A-landsleik með Frökkum gegn Króatíu í 8-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar í mars og var þá í silfurliðinu á Ólympíuleikunum á síðasta ári.
Athugasemdir