Toney og David á blaði Man Utd - Bayern vill varnarmann Liverpool - Chelsea endurvekur áhuga á Duran - Luiz nálgast Juventus
   þri 21. maí 2024 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ásta um nýja stöðu: Hefur komið upp í umræðuna áður
Ásta Eir Árnadóttir.
Ásta Eir Árnadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik fagnar marki.
Breiðablik fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, hefur byrjað tímabilið afar vel í liði Breiðabliks. Hún hefur allan sinn feril spilað sem hægri bakvörður en er núna að leika sem miðvörður og er að gera það mjög svo vel.

Ásta ræddi við Fótbolta.net eftir bikarleikinn gegn Stjörnunni á dögunum og var þar spurð út í stöðuna sem hún er núna að spila, þetta nýja hlutverk.

„Við höfum verið að æfa þetta í allan vetur og mér finnst það vera að ganga fínt. Við erum þéttar og heilt yfir finnst mér þetta hafa gengið vel. Mér líður vel þarna. Ég er með góða yfirsýn. Þetta er allt öðruvísi en að vera í bakverði þar sem ég er búin að vera við hliðarlínuna endalaust. Það var það sem ég þurfti mest að venjast, að sjá meira af vellinum. Ég er bara að fíla þetta," sagði Ásta en hvernig tók hún í það þegar Nik Chamberlain, þjálfari Blika, kom með þessa hugmynd?

„Ég var alveg til. Þetta hefur komið upp í umræðuna áður en það hafði bara enginn tekið skrefið að færa mig þangað. Þetta kom mér ekki rosalega mikið á óvart og sérstaklega þar sem ég vissi að við værum að sækja bakverði."

„Ég er ótrúlega ánægð með þetta hlutverk og þau (Nik og Edda, þjálfarar Breiðabliks) hafa verið góð í að þjálfa mig í því. Elín (Helena Karlsdóttir) er við hliðina á mér og við náum mjög vel saman. Ég er mjög sátt."

Breiðablik hefur bara fengið á sig eitt mark í fyrstu fimm leikjum tímabilsins.

„Liðið í heild er að verjast mjög vel. Við höfum alltaf verið gott sóknarlið en síðustu ár höfum við verið að fá mikið af mörkum á okkur. Við þurftum að einblína á varnarleikinn. Þetta byrjar allt þar. Þetta byrjar með sóknarmönnunum og mér finnst þær hafa gert mjög vel. Í hvert skipti sem við missum boltann erum við alltaf komnar til baka. Við erum allar með okkar hlutverk á hreinu. Liðið í heild er að verjast töluvert betur en síðustu árin," sagði Ásta en allt viðtalið við hana má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Ásta Eir: Mér er alveg sama hvernig við vinnum leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner