Garnacho vill ekki til Arabíu - Bayern gæti reynt við Trossard - Ferguson hefur gert munnlegt samkomulag við Roma
   mán 21. júní 2021 10:59
Elvar Geir Magnússon
Logi líklega látinn fara frá FH í dag
Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þær sögusagnir eru ansi háværar að Logi Ólafsson verði rekinn frá FH í dag og er talið líklegast að Ólafur Jóhannesson taki við liðinu.

Fótbolti.net hefur reynt að ná í Valdimar Svavarsson, formann knattspyrnudeildar FH, en án árangurs.

Illa hefur gengið hjá FH-ingum, þeir eru án sigurs í síðustu fjórum leikjum í Pepsi Max-deildinn og hafa tapað þremur af þeim.

Logi var spurður að því eftir 4-0 tap gegn Breiðabliki í gær hvort hann óttaðist um sæti sitt.

„Nei, nei við bara finnum út úr því og ef svo er þá er það bara einhver niðurstaða. Menn verða bara að tala saman um það. Við höldum áfram, og ég er ekki þannig týpa að ég hleyp í burtu," sagði Logi.

Logi tók við FH í fyrra með Eiði Smára Guðjohnsen og undir þeirra stjórn hafnaði liðið í öðru sæti. Eftir tímabilið var Eiður ráðinn aðalþjálfari en þegar hann tók við aðstoðarþjálfarahlutverkinu hjá landsliðinu var Logi ráðinn aðalþjálfari á ný og með Davíð Þór Viðarsson sem aðstoðarmann.

Gengi FH á þessu tímabili hefur verið dapurt og liðið er í sjötta sæti Pepsi Max-deildarinnar.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur FH sett sig í samband við Ólaf Jóhannesson. Ólafur, sem er 63 ára, þjálfaði FH 1988-1990 og 2003-2007. Undir hans stjórn varð FH í þrígang Íslandsmeistari.
Athugasemdir