Risaverðmiði á Isak sem er á óskalista Chelsea - Bayern ætlar að reyna við Onana - Áhugi frá Sádi-Arabíu á Garnacho
banner
   fös 21. júní 2024 17:57
Ívan Guðjón Baldursson
EM: Austurríki vann eftir fjöruga viðureign
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Pólland 1 - 3 Austurríki
0-1 Gernot Trauner ('9 )
1-1 Krzysztof Piatek ('30 )
1-2 Christoph Baumgartner ('66 )
1-3 Marko Arnautovic ('78 , víti)

Austurríki og Pólland áttust við á Evrópumóti landsliða í dag og úr varð skemmtileg viðureign, þar sem Austurríki tók forystuna snemma leiks.

Gernot Trauner skoraði þá með skalla eftir fyrirgjöf á níundu mínútu en Krzysztof Piatek jafnaði fyrir Pólverja á 30. mínútu. Piatek skoraði eftir mikinn atgang í teig Austurríkismanna í kjölfar hornspyrnu, þar sem hann var réttur maður á réttum stað þegar boltinn datt niður í teignum.

Það ríkti þokkalegt jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik þar sem Pólverjar virtust þó líklegri til að skora, en staðan var 1-1 í leikhlé.

Austurríkismenn voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og verðskulduðu að taka forystuna þegar Christoph Baumgartner skoraði á 66. mínútu eftir undirbúning frá Marko Arnautovic og Alexander Prass.

Arnautovic innsiglaði sigurinn svo sjálfur með marki úr vítaspyrnu á 78. mínútu, eftir að Wojciech Szczesny var dæmdur brotlegur innan vítateigs.

Lokatölur 1-3 fyrir Austurríki sem er í þriðja sæti og á eftir að spila við Holland í lokaumferð riðlakeppninnar.

Pólverjar eru án stiga og eiga eftir leik gegn Frakklandi.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner