Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 21. október 2019 15:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Sér Kolbein fara aftur á meginlandið í framtíðinni
Kolbeinn fagnar eftir að hann jafnaði markametið.
Kolbeinn fagnar eftir að hann jafnaði markametið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn í leiknum gegn Frökkum á dögunum.
Kolbeinn í leiknum gegn Frökkum á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson jafnaði fyrir viku markamet íslenska landsliðsins þegar hann skoraði sitt 26. landsliðsmark í sigri á Andorra. Kolbeinn er kominn á fulla ferð eftir erfiðan kafla á ferlinum þar sem hann var frá keppni í tæp tvö ár vegna meiðsla.

Kolbeinn var valinn í íslenska landsliðshópinn á ný í fyrra þrátt fyrir að vera úti í kuldanum hjá Nantes. Erik Hamren, landsliðsþjálfari, hafði trú á Kolbeini og fékk talsverða gagnrýni fyrir. Sú ákvörðun hefur hins vegar skilað sér að undanförnu. Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, ræddi um Kolbein í útvarpsþætti Fótbolta.net um helgina.

„Þetta var sætt augnablik fyrir okkur öll," sagði Freyr um augnablikið þegar Kolbeinn jafnaði markametið. „Þó að umræðan hafi verið hávær um að Erik Hamren væri galin að velja hann á sínum tíma þá var alltaf plan af hverju við vorum að gera þetta. Við fögnum saman, líka þeir sem voru óánægðir á sínum tíma. Þeir eru glaðir núna að þetta hafi gengið upp."

„Þó að þetta hafi gengið upp þá var það ekkert víst. Þetta var áhætta en hún var þess virði. Kolli er stórkostlegur leikmaður og stór karakter í hópnum. Það eru fáir jafn hungraðir í að spila fótbolta og með íslenska landsliðinu og Kolli. Hann missti gríðarlega mikið úr og ég held að hann sé að njóta hverrar einustu mínútu,"


Hrós á AIK
Kolbeinn gekk fyrr á þessu ári til liðs við AIK í Svíþjóð og þar hefur hann náð að bæta form sitt með hverjum mánuðinum.

„Það er stöðug bæting hjá honum og AIK á allt hrós skilið fyrir hvernig þeir hafa hugsað um hann. Hann gat ekki farið á betri stað. Þeir voru algjörlega upplýstir um hans stöðu, það hvað var að og hvernig var hægt að vinna með þetta. Þó að þeir séu í algjörri toppbaráttu hafa þeir allan tímann haldið í planið, hvernig er hægt að ná mestu úr honum og vera besta útgáfan af sjálfum sér. Þeir eiga mikið hrós skilið og ég tek hatt minn ofan fyrir þeim."

Hinn 29 ára gamli Kolbeinn hefur áður spilað með AZ Alkmaar og Ajax í Hollandi sem og Nantes í Frakklandi. Freyr telur að Kolbeinn geti stigið aftur skref í stærri deildir áður en ferlinum lýkur.

„Ég held að hann spili 100% eitt ár í viðbót í Stokkhólmi. Ef hann helst heill þá kæmi mér ekki á óvart að hann færi aftur á meginlandið," sagði Freyr í þættinum um helgina.
Freysi svaraði spurningum um stöðu mála hjá landsliðinu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner