sun 22. mars 2020 20:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Laporte á óskalista Barcelona fyrir sumarið
Aymeric Laporte.
Aymeric Laporte.
Mynd: Getty Images
Aymeric Laporte, besti miðvörður Manchester City, er á óskalista Barcelona.

Samkvæmt spænska fjölmiðlinum Mundo Deportivo þá hefur Laporte lengi verið á óskalista Börsunga og vonast félagið til að nýta sér bann Manchester City frá Evrópukeppnum til að næla í franska miðvörðinn.

City var dæmt í tveggja ára bann frá Evrópukeppnum í febrúar þar sem svo var metið að félagið hefði brotið fjármálareglur UEFA. Englandsmeistararnir hafa áfrýjað dómnum.

Ef áfrýjunin gengur ekki upp þá gæti félagið misst einhverja af sínum bestu leikmönnum, eins og til dæmis Laporte sem er þó talinn vera rólegur yfir stöðu mála hjá City.

Hinn 25 ára gamli Laporte hefur verið mjög óheppinn með meiðsli á þessu tímabili og aðeins komið við sögu í fimm keppnisleikjum á allri leiktíðinni.
Athugasemdir
banner