
Aron Einar Gunnarsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar í 2-1 tapi Íslands í fyrri leiknum gegn Kósovó í umspili Þjóðadeildarinnar. Atli Viðar Björnsson ræddi um landsliðið í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.
Atli telur að sjálfstraust Arons hafi skyndilega hrapað þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik í fyrri leiknum.
Atli telur að sjálfstraust Arons hafi skyndilega hrapað þegar stutt var eftir af fyrri hálfleik í fyrri leiknum.
„Mér fannst Aron Einar ljómandi góður í 40 mínútur, bara mjög fínn. Þá fannst mér hann stýra. Svo gerist það í lok fyrri hálfleiks að hann hálf dettur einu sinni með boltann og Kósovarnir ná næstum að hirða hann af honum og sleppa í gegn en hann reddar sér. Svo fer hann í glannalega tæklingu og fær gult spjald, þetta gerist allt á einni og hálfri mínútu. Þarna fannst mér hann bara missa sjálfstraust. Mér fannst eiginlega leik ljúka hjá honum á þessum tímapunkti," segir Atli.
„Svo meiðir hann sig aðeins snemma í seinni hálfleik og fannst hann aldrei ná takti eftir þetta. Hann fer að sitja eftir og spila menn réttstæða, Kósovarnir fá allavega tvö færi í seinni hálfleik þar sem hann gleymir að stíga upp eða situr of langt niðri. Ég er pínu að taka upp hanskann fyrir hann en frammistaðan eftir þessi atvik var ekki góð."
„Það er mannlegt eðli, ef hann upplifir sig aðeins þreyttan eða aðeins stífan, þá situr hann eftir. Hann stígur ekki eins aggresíft upp og hann á að gera og það smitast út í allt liðið. Það slitnar á milli lína og auðveldara að komast í gegnum okkur."
Atli hefur ekki mikla trú á því að Aron byrji á morgun eftir að hafa spilað 90 mínútur á fimmtudaginn. Leikur Íslands og Kósovó verður klukkan 17 á morgun að íslenskum tíma, 18 að staðartíma. Kósovó vann fyrri leikinn 2-1 og möguleiki á að leikurinn á morgun endi í framlengingu og jafnvel vítakeppni.
Athugasemdir