
Alma Rós Magnúsdóttir er nafn sem íslenskir knattspyrnuáhugamenn ættu að leggja á minnið til framtíðar. Alma sem einungis er 15 ára gömul og enn í grunnskóla var í byrjunarliði Keflavíkur í Bestu deildinni í kvöld þegar liðið bar sigurorð af Selfoss í Reykjanesbæ fyrr í kvöld. Alma sem skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild á dögunum mætti galvösk í viðtal við fréttaritara Fótbolta.net og ræddi um upplifun sína af leiknum í aðstæðum sem hún var eflaust stressaðri fyrir en leiknum sjálfum.
Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 0 Selfoss
„Það var bara geggjað, mjög gaman og bara geggjað.“
Alma sem eins og áður segir er aðeins 15 ára gömul og með allra yngstu leikmönnum deildarinnar. En hvernig skyldi vera fyrir hana að vera í hóp með eldri og reyndari leikmönnum og hvernig taka þær henni?
„Þær taka mér bara mjög vel. Þetta er bara alveg geggjaður hópur.“
Þegar um jafn unga leikmenn er að ræða og Ölmu leikur manni forvitni á að vita hvert þeir stefni í framtíðinni. Hvar skyldi Alma sjá sig eftir 5 ár?
„Ég væri alveg til í að vera komin út að spila, ég stefni á það allavegana.“
Sem leikmaður Keflavíkur horfir hún mögulega til Sveindísar Jane og hennar framgöngu í fótboltanum á undanförnum árum?
„Já Sveindís og Sara Björk og svona.“
Sagði Alma en viðtalið við hana má sjá hér að ofan
Athugasemdir