
Selfoss þurfti að gera sér tap að góðu þegar liðið mætti Keflavík suður með sjó í kvöld en lokatölur urðu 1-0 Keflavík í vil. Björn Sigurbjörnsson þjálfari Selfoss eða Bjössi var til viðtals eftir leikinn og svaraði aðspurður um hvort tapið væri súrt?
Lestu um leikinn: Keflavík 1 - 0 Selfoss
„Það er margt sem ég er ekki sáttur með en súrt tap veit ég ekki endilega. Mér fannst við bara ekkert eiga skilið úr þessum leik. Mér fannst við flöt og slöpp og halda skipulagi illa og fara illa eftir því sem við vorum búin að setja upp“
Það má auðveldlega færa rök fyrir því að sóknarleikur Selfoss hafi fyrst og fremst orðið þeim að falli ´án þess þó að taka nokkuð frá sterkum og öguðum varnarleik Keflavíkurliðsins. Fréttaritara rak ekki minni til þess að Selfossliðið hafi hitt á markrammann í leiknum og því auðvelt að benda fingri á þá staðreynd.
„Ég held að við höfum ekki hitt á rammann í leiknum, einhverja skalla framhjá og skot í fyrri hálfleik sem fór yfir en það var ekki mikil hætta af okkur það er alveg rétt. Keflavík skipulagðar og góðar varnarlega og kudos á þær fyrir það.“
Selfossliðið sem var komið af stað í mótinu eftir jafntefli gegn Val á útivelli og sigur á Tindastól heima í síðasta leik var ólíkt því sem við sáum í þeim leikjum og hafði fréttaritari á orði að frammistaðan hefði verið skref aftur á bak frá þeim leikjum.
„100 prósent.“ Sagði Bjössi og bætti við spurður hvort hann kynni skýringar á því.
„Nei í rauninni ekki. Mér fannst við búin að greina Keflavík ágætlega og setja upp ágætis leikplan en til að segja þér alveg eins og er þá þarf ég að kíkja betur á þetta áður en ég fer að gefa út einhverjar yfirlýsingar um hvað sé að.“
Sagði Bjössi en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir