Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 22. júní 2021 19:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Noregur: Amanda og Ingibjörg skoruðu báðar
Amanda er aðeins 17 ára gömul.
Amanda er aðeins 17 ára gömul.
Mynd: Getty Images
Íslendingarnir í norska meistaraliðinu Vålerenga voru báðar á skotskónum í dag.

Vålerenga mætti Arna-Björnar og Ingibjörg Sigurðardóttir kom Vålerenga yfir á 71. mínútu leiksins. Hún kláraði eins og sóknarmaður í teignum.

Stuttu síðar bætti hin 17 ára gamla Amanda Andradóttir við öðru marki Vålerenga. Hún kom inn á sem varamaður eftir um klukkutíma leik. Leikurinn endaði 2-0 fyrir Vålerenga.

Það hefur verið umræða um að Amanda, sem er dóttir Andra Sigþórssonar, verði kölluð í A-landslið Íslands við fyrsta tækifæri. Hún er uppalin í Val og Víkingi en fór í atvinnumennsku þegar hún var 15 ára.

Hún hefur spilað fyrir yngri landslið Íslands en var á dögunum valin í yngri landslið Noregs í fyrsta skipti.

Það gæti ráðist í september hvort hún spili fyrir Ísland eða Noreg í framtíðinni. Þegar hún spilar keppnisleik með A-landsliði þá verður landsliðsframtíð hennar staðfest.

Amanda hefur farið vel af stað með Vålerenga, rétt eins og Ingibjörg sem var besti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar í fyrra.

Markvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir var á varamannabekknum hjá Arna-Björnar í dag.

Vålerenga er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki en Arna-Björnar er án stiga.
Athugasemdir
banner
banner
banner