"Í þessum leik sköpuðum við fleiri færi en í öllum leikjunum til þessa í sumar. Við hefðum getað verið 5-1 yfir í hálfleik því þeir skoruðu tvö mörk upp úr engu," sagði Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, eftir 3-1 tap gegn Grindavík í kvöld.
Lestu um leikinn: Ægir 1 - 3 Grindavík
"Í seinni hálfleiknum var leikurinn opnari og að endingu áttu þeir skilið að sigra og ég óska þeim til hamingju."
Það er saga Ægisliðsins í sumar að búa til góð færi en ná ekki að nýta þau. "Það gæti verið sjalfstraustið. Þegar þú byrjar vel fer allt að falla með þér en þegar þú byrjar illa gengur ekkert."
En hvað er þá til ráða? "Ég hreinlega veit það ekki. Ég hef reynt að breyta um taktík og hrista upp í liðinu."
Félagaskiptaglugginn opnar um miðjan júlí og Ægismenn ætla að gera breytingar á hópnum sínum. "Já við verðum að bæta við. Það þýðir ekkert að gefast upp. Einhverjir leikmenn munu fara annað og svo fáum við inn leikmenn til að styrkja okkur. Ég hlakka til gluggans."
Nánar er rætt við Nenad í spilaranum hér að ofan.
























