fim 22. ágúst 2019 21:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Klopp telur að Coutinho geti slegið í gegn - Minnir á Del Piero
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, telur að Philippe Coutinho geti sprungið út í þýsku úrvalsdeildinni eftir erfiðan tíma á Spáni.

Coutinho gekk í raðir Bayern München á mánudag, á láni frá Barcelona.

Barcelona keypti Coutinho frá Liverpool í janúar 2018 á rúmar 140 milljónir punda. Hann fann sig ekki hjá Barcelona og er núna kominn í þýska boltann.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að félagið hafi ekki haft efni á að fá Coutinho aftur í sínar raðir núna en Evrópumeistararnir áttu mjög rólegan sumarglugga. Klopp hefur fulla trú á Coutinho í þýska boltanum.

„Coutinho fékk alls ekki mikið að spila í tíunni hjá okkur. Það er hans uppáhalds staða, en hann er líka frábær í áttunni eða sem kantmaður vinstra megin. Hann er ótrúlega góður í litlu plássi og hefur jafnframt hraðann til að nýta sér mikið pláss," sagði Klopp við Kicker.

„Bayern þurfti hann, og Bayern fékk hann. Ef þeir ná að koma honum inn í liðið og ná því besta út úr honum þá er þarna leikmaður í hæsta gæðaflokki að mæta í þýsku úrvalsdeildina."

„Coutinho er með magnað auga fyrir markinu af löngu færi. Ég hef ekki séð leikmann koma inn af vinstri kantinum og skjóta boltanum eins og hann gerir síðan (Alessandro) Del Piero var upp á sitt besta," sagði Klopp.

Klopp þekkir þýska boltann og Coutinho vel. Hann var áður stjóri Mainz og Dortmund. Hann þjálfaði Coutinho hjá Liverpool áður en Brasilíumaðurinn var seldur til Barcelona.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner