fim 23. janúar 2020 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Scholes hefur enga trú á Pogba: Vill ekki spila
Mynd: Getty Images
Paul Scholes, fyrrum miðjumaður Manchester United og núverandi knattspyrnusérfræðingur á BT Sport, hefur enga trú á Paul Pogba miðjumanni Man Utd.

Scholes telur að Pogba vilji ekki vera áfram hjá félaginu og býst við að hann finni nýjar afsakanir til að sleppa sem flestum leikjum út tímabilið.

„Ég held ekki að Pogba sé á leið aftur úr meiðslum. Þó hann sé á leið til baka þá mun hann finna eitthvað nýtt til að kvarta yfir til að sleppa því að spila. Hann vill skipta um félag," sagði Scholes eftir 0-2 tap Man Utd gegn Burnley á Old Trafford.

Pogba hefur verið frá vegna meiðsla stærstan hluta tímabils. Hann er aðeins búinn að spila sjö úrvalsdeildarleiki hingað til, en á síðustu leiktíð skoraði hann 13 mörk í 35 deildarleikjum.

„Við byrjum alltaf að tala um leikmennina sem eru ekki til staðar en staðreyndin er sú að liðið sem Man Utd tefldi fram í kvöld hefði átt að vera nóg til að sigra Burnley. Ég óttast ástandið næstu 4-5 vikur því ég sé ekki hvaða lykilmenn eru að fara að snúa til baka úr meiðslum.

„Ég held að McTominay verði ekki klár á þessum tíma og útlit er að Rashford verði frá í þrjá mánuði. Solskjær er fastur með þessa leikmenn næstu vikurnar og þarf einhvern veginn að ná sjálfstraustinu þeirra aftur upp.

„Það eru erfiðir leikir framundan, þetta á eftir að verða mjög erfiður tími fyrir þá."

Athugasemdir
banner
banner
banner