„Ég er mjög sáttur. Mér fannst aðeins vanta taktinn á móti Grindavík en mér fannst þessi leikur í dag vera ljómandi góður og skref fram á við," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 6-1 sigur á Keflavík í Fótbolta.net mótinu í dag.
Breiðablik er búið að vinna fyrstu tvo leiki sína í mótinu, 3-0 gegn Grindavík og 6-1 í dag.
Davíð Örn Atlason gekk í raðir Blika á dögunum og Óskar er ánægður með að fá hann inn í hópinn.
„Hann er frábær viðbót við hópinn. Það var ekki alveg augljóst hver væri hægri bakvörður í liðinu og þegar við áttum möguleika á að fá hann, þá gerðum við allt sem við gátum til að fá hann. Hann kemur til með að styrkja okkur innan vallar sem utan vallar."
Er von á fleiri leikmönnum? „Nei, nei... leikmannahópurinn er hreyfanlegt afl og við erum alla daga að hugsa hvernig við getum bætt hann. Getum við bætt hann með öðrum leikmönnum? Getum við bætt hann með að bæta æfingarnar? Um leið og þú hættir að hugsa um það, þá ertu sennilega ekki að vinna vinnuna þína. Ég ætla að lofa sem minnstu en við erum afskaplega ánægðir með hópinn eins og hann er í dag."
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir