Trent búinn að semja við Real um kaup og kjör - Man Utd ætlar að losa sig við Rashford og Casemiro - United skoðar ungan Tyrkja
   sun 23. mars 2025 13:00
Brynjar Ingi Erluson
Söguleg úrslit í El Clasico og titilbaráttan galopin
Caroline Weir skoraði tvö á lokamínútunum
Caroline Weir skoraði tvö á lokamínútunum
Mynd: EPA
Spænska liðið Real Madrid vann óvæntan og sögulegan 3-1 sigur á Barcelona í Liga F á Spáni í dag en þetta var í fyrsta sinn í sögunni sem Real Madrid hefur betur gegn Börsungum.

Barcelona hefur verið langbesta lið Spánar síðasta áratuginn og ekkert lið komist með tærnar þar sem Barcelona er með hælana en það er nú ágætis möguleiki á spennandi titilbaráttu í fyrsta sinn í mörg ár.

Tölfræðin var ekki með Madrídingum fyrir leikinn. Barcelona hafði unnið alla átján keppnisleiki sína gegn Real Madrid og flestir þeirra fremur sannfærandi.

Madrídarliðið mætti til leiks reiðubúið að skrifa söguna. Alba Redondo kom Real Madrid yfir undir lok fyrri hálfleiks með skalla eftir fyrirgjöf Caroline Möller.

Norska landsliðskonan og ein sú besta í heimi, Caroline Graham Hansen, jafnaði metin á 67. mínútu með tíunda deildarmarki sínu á tímabilinu og flestir vissir um að heimakonur myndu taka yfir leikinn en svo var ekki.

Kólumbíski vængmaðurinn Linda Caicedo lagði boltann út á Caroline Weir sem skaut í fyrsta úr teignum og efst í vinstra hornið og seint í uppbótartíma gerði hún út um leikinn með öðru marki sínu.

Sögulegur og frábær sigur Madrídinga sem eru að hleypa miklu lífi í titilbaráttuna á Spáni. Barcelona er enn á toppnum með 63 stig en Real Madrid er aðeins fjórum stigum á eftir þeim þegar sjö umferðir eru eftir.


Athugasemdir
banner
banner
banner