„Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að liði sem er að koma upp um deild sé spáð falli," segir Bjarni Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við Fótbolta.net.
Selfyssingum er spáð ellefta sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.
Selfyssingum er spáð ellefta sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.
„Undirbúningurinn hefur gengið upp og niður, þó það sé betra veður í loftinu núna. Þetta er ekkert óeðlilegt og við tökum þetta ekkert nærri okkur. Við sáum það í fyrra hvernig nýliðum vegnaði í deildinni, ÍR-ingar komust í umspilið. Maður veit aldrei, þessi spá á að efla okkur," segir Bjarni.
Var náttúrulega bara frábært
Bjarni tók við Selfossi fyrir síðasta tímabil - eftir að liðið hafði fallið í 2. deild. Hann kom liðinu upp í fyrstu tilraun og á sama tíma fór Selfoss með sigur af hólmi í Fótbolti.net bikarnum.
„Síðasta tímabil var náttúrulega bara frábært. Við náðum að rífa okkur vel af stað í mótið þá og héldum þetta vel út. Það er mikill getumunur á milli deilda og vonandi gerum við okkur grein fyrir því. Við verðum að mæta af krafti og hrekja þessa spá," segir Bjarni.
„Stemningin í hópnum er fín og á bikarleiknum um daginn var fullt af fólki á vellinum. Við vonum að stuðningurinn verði meiri en í fyrra og fólk fjölgi á vellinum þar sem við erum komnir upp um deild."
Selfoss vann 4-0 sigur gegn Haukum í Mjólkurbikarnum á dögunum og það er eitthvað sem liðið getur tekið með sér inn í mótið.
„Leikur okkar hefur farið batnandi seinni partinn af Lengjubikarnum og eins í æfingaleikjum sem við höfum verið að spila. Það er batamerki á þessu," segir Bjarni og bætti við:
„Hópurinn er ágætlega samsettur. Við höfum beðið lengi eftir sóknarmanni sem er loksins kominn. Vonandi náum við að þétta þetta enn frekar áður en glugginn lokar. Hópurinn er orðinn nokkuð klár."
Fimmta sætið heillar
Lengjudeildin hefur verið mjög spennandi og áhugaverð síðustu ár. Helsta ástæðan fyrir því er umspilið sem verður núna þriðja tímabilið í röð.
„Mér finnst þessi lið öllsömul vera nokkuð góð. Þessi lið sem voru í toppbaráttu í fyrra koma til með að vera þar. Af þeim liðum sem ég hef séð, þá finnst mér Fylkir vera með yfirburðarlið. Það fer oft ekki saman góður árangur á undirbúningstímabilinu og í mótinu sjálfu, en Fylkisliðið er langheilsteyptasta liðið sem ég hef séð," segir Bjarni.
Efsta liðið fer beint upp úr deildinni en liðin í öðru til fimmta sæti fara í umspilið.
„Fimmta sætið, það heillar. Eigum við ekki að orða það þannig?" segir Bjarni.
„Umspilið er eiginlega þannig að þú heldur dampi út allt mótið. Það verður aldrei nein afslöppun. Ef að lið er búið að tryggja sig nokkurn veginn, þá á það alltaf séns í fimmta sætið. Þetta er skemmtileg nýbreytni og tvö síðustu árin hefur endirinn á Lengjudeildinni verið geggjaður. Ég held að það verði líka þannig núna í ár."
Bíðum spenntir
Bjarni er gríðarlegur reynslubolti í faginu en hann finnur enn sömu orkuna og áður þegar tímabilið er að byrja, jafnvel þó svo að margt hafi breyst.
„Þetta er alltaf eins spennandi. Það er fullt af fólki með manni í þessu og þetta er ekki alveg eins og það var þegar maður stóð einn út á velli með eitt lið. Núna er fullt af aðstoðarfólki og sem betur fer. Ég er með glimrandi aðstoðarmenn með mér," segir Bjarni.
„Það er spenningur í okkur. Við eigum heimaleik í fyrsta leik og við bíðum spenntir."
Athugasemdir