banner
   fös 24. mars 2023 22:14
Ívan Guðjón Baldursson
Casemiro tekur við bandinu af Thiago Silva
Mynd: Getty Images

Brasilíski miðjumaðurinn Casemiro er nýr fyrirliði brasilíska landsliðsins og tekur við fyrirliðabandinu af hinum þaulreynda Thiago Silva.


Thiago Silva, sem verður 39 ára í september, hefur verið fyrirliði Brasilíu undanfarin ár en mun taka talsvert minni þátttöku í framtíð landsliðsins sökum hækkandi aldurs. Hann hefur ekki lagt skóna opinberlega á hilluna en það styttist í þá tilkynningu.

Silva er ekki í landsliðshópi Brasilíu í landsleikjahlénu vegna meiðsla, en gæti þó verið með í næsta hópi.

Ramon Menezes er bráðabirgðaþjálfari Brasilíu á meðan landsliðið leitar að nýjum þjálfara til að taka við af Tite - sem var látinn fara eftir að Brasilía tapaði vítaspyrnukeppni gegn Króatíu í 8-liða úrslitum á HM í Katar. Menezes hefur valið að gera Casemiro að fyrirliða.

„Þetta er mikið ábyrgðarhlutverk og ég er tilbúinn fyrir það. Ég er þakklátur fyrir traustið sem mér er sýnt með þessari ákvörðun. Ég er nú þegar einn af fyrirliðum landsliðsins hvort sem ég er með bandið eða ekki," sagði Casemiro á fréttamannafundi.

Casemiro er einn af nokkrum leikmönnum Manchester United sem eru viðloðandi landsliðshóp Brasilíu. Antony, Fred og Alex Telles eru einnig mikið í kringum hópinn, þó að Fred hafi ekki verið valinn í nýjasta leikmannahópinn. Bakvörðurinn Telles er samningsbundinn Man Utd en spilar fyrir Sevilla á lánssamningi.


Athugasemdir
banner
banner
banner