Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   lau 24. ágúst 2024 18:35
Brynjar Ingi Erluson
England: Arsenal refsaði Aston Villa með tveimur mörkum á tíu mínútum
Arsenal er komið með tvo sigra af tveimur mögulegum
Arsenal er komið með tvo sigra af tveimur mögulegum
Mynd: EPA
Ollie Watkins fór illa með tvö dauðafæri
Ollie Watkins fór illa með tvö dauðafæri
Mynd: EPA
Aston Villa 0 - 2 Arsenal
0-1 Leandro Trossard ('67 )
0-2 Thomas Teye Partey ('77 )

Arsenal vann annan leik sinn í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu er liðið lagði Aston Villa að velli, 2-0, á Villa Park í dag. Heimamenn fóru illa með góð færi í leiknum og var refsað með mörkum frá Leandro Trossard og Thomas Partey.

Villa-menn fengu hættulegasta færi fyrri hálfleiksins. Það kom á 25. mínútu en Gabriel Magalhaes reyndi að skýla boltanum áður en Leon Bailey kom aftan að honum og tók hann með sér í grasið.

Morgan Rogers tók boltann, lagði hann inn á Ollie Watkins sem var einn gegn David Raya, en setti boltann á einhvern ótrúlegan hátt framhjá markinu. Algert dauðafæri.

Arsenal náði að skapa sér góðar stöður en það var hins vegar áþreifanlegt hvað liðinu sárvantar að vera með alvöru 'níu' á toppnum.

Heimamenn fengu annað dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks. Amadou Onana átti skot sem hafnaði í þverslá. Raya skutlaði sér á eftir boltanum og hafnaði í markinu, en boltinn datt út á Watkins sem flugskallaði boltann í átt að marki, en Raya var fljótur að bregðast. Hann skutlaði sér í skotið og náði að blaka boltanum í burtu. Glæsileg varsla hjá Spánverjanum.

Þessi klúður Villa-manna áttu eftir að bíta þá í rassinn. Belgíski leikmaðurinn Leandro Trossard kom inn af bekknum hjá Arsenal á 65. mínútu og tæpum tveimur mínútum síðar gerði hann fyrra mark Arsenal og það í fyrstu snertingu!

Bukayo Saka dansaði með boltann við teiginn áður en hann lagði hann út á Trossard sem skoraði með föstu skoti neðst í hægra hornið.

Saka átti einnig stoðsendingu að öðru marki Arsenal sem kom tíu mínútum síðar. Hann kom boltanum út á Thomas Partey sem setti boltann á nákvæmlega sama stað og Trossard nema nú náði Emiliano Martínez til knattarins. Hanskarnir hafa eflaust verið eitthvað sleipir því boltinn fór í gegnum hendur hans og í netið. Klaufagangur hjá argentínska landsliðsmanninum.

Martin Ödegaard gat gert þriðja mark Arsenal á 80. mínútu en hamraði boltanum yfir markið úr frábæru færi í miðjum teignum og þá gat Jacob Ramsey minnkaði muninn hinum megin á vellinum er hann slapp inn fyrir eftir sendingu Jhon Duran en William Saliba var fljótur til baka til þess að koma í veg fyrir skotið.

Villa-menn eflaust svekktir að hafa ekki fengið meira úr þessum leik. Illa farið með tvö dauðafæri og náðu Arsenal-menn að refsa fyrir það með tveimur mörkum á tíu mínútum.

Arsenal er með fullt hús stiga eftir tvær umferðir en Aston Villa með þrjú stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner