
„Ég er bara mjög spennt... spennt að sjá hvernig við erum á móti Danmörku því það er langt síðan við spiluðum við þær síðast. Ég er líka mjög spennt fyrir Þýskalandsleiknum," sagði Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Stelpurnar spila á föstudaginn gegn Danmörku í Þjóðadeildinni og nokkrum dögum síðar mæta þær Þýskalandi. Þetta verða tveir gríðarlega erfiðir leikir.
Ingibjörg er í banni í fyrri leiknum gegn Danmörku eftir að hafa fengið gult spjald í fyrstu tveimur leikjunum í Þjóðadeildinni.
„Það er mjög fúlt. Þetta gula spjald í Þýskalandi var 100 prósent rétt, en svo fæ ég gult spjald á móti Wales þar sem ég var víst að tefja leikinn en er búin að vera á boltanum í sjö sekúndur. Það er svekkjandi. Að fá tvö gul spjöld og fara beint í bann er hart, en svona er þetta."
„Þetta er mjög mikilvægur leikur sem ég er að missa af og þetta er mjög fúlt."
Ingibjörg segir það svekkjandi að missa af leiknum gegn Danmörku en hún þekkir til leikmanna í danska liðinu.
„Ég hef fulla trú á okkur. Ég held að þetta sé klárlega leikur sem við getum fengið eitthvað út úr. Þær eru koma úr sterku verkefni og eru með sjálfstraust, en ég hef trú á okkur. Ég á tvær mjög góðar vinkonur í þessu liði sem ég spila með í Vålerenga. Þær eru góðar og ég veit að þær eru mjög ánægðar með þennan nýja þjálfara hjá sér," sagði Ingibjörg.
„Þær eru aðallega búnar að tala yfir því hvað það verður kalt þegar þær æfa hérna. Þær eru ekki sáttar við það að æfa hér í nokkra daga, en þær þurfa að venjast kuldanum."
Hægt er að sjá viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan í heild sinni þar sem Ingibjörg fer aðeins yfir síðasta verkefni og síðustu vikur hjá Vålerenga.
Athugasemdir