Man City horfir til Gyökeres - Xavi vill taka Raphinha með sér - Man Utd gæti lánað Antony
   fim 24. október 2024 23:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Segir Víkinga taktískt 10 sinnum betri - „Sannar sig enn og aftur sem æðislegur þjálfari"
Arnar Gunnlaugsson í leikslok.
Arnar Gunnlaugsson í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári ánægður með sína menn.
Kári ánægður með sína menn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vel fagnað í leikslok.
Vel fagnað í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason var hæstánægður þegar hann ræddi við Fótbolta.net eftir sigur Víkings á Cercle Brugge í Sambandsdeildinni.

Sigurinn var sögulegur, fyrsti sigur íslensks liðs í sjálfri Sambandsdeildinni og tryggði Víkingur sér 400 þúsund evrur eða um 60 milljónir króna í sigurlaun.

Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 -  1 Cercle Brugge

„Það er bara æðislegt að vera Víkingur í dag, eins og það hefur verið síðastliðin ár. Risa skref í íslenskum fótbolta sem var tekið í dag og gaman að geta skrifað söguna," segir Kári sem er yfirmaður fótboltamála hjá félaginu.

„Við fundum það úti í fyrsta leiknum að þetta, sjálf Sambandsdeildin, er svolítið annað. Það er eitt að segjast ætla vinna og það er annað gera það. Við fengum skell úti í Kýpur, þó að lokatölur hafi ekki endurspeglað mynd leiksins, menn fundu að þetta er aðeins annar leikur. Fyrir fram var Cercle Brugge eitt af sterkari andstæðingunum, menn stigu heldur betur upp og sýndu alvöru frammistöðu. Menn stóðu sig frábærlega og gáfum fá færi á okkur. Við áttum í rauninni að vinna þetta stærra."

„Nikolaj fær dauðafæri, Danijel fær dauðafæri áður en hann skorar og við klikkum líka á víti. Við hefðum átt að vinna þetta stærra ef eitthvað er. Ef við eigum að vera alveg hlutlausir og segja bara hvað hefði verið sanngjarnt, þá var það að við myndum vinna þennan leik stærra frekar en að þeir hefðu náð að minnka muninn eða jafna."


Víkingar lentu 0-1 undir í fyrri hálfleik eftir klaufagang við eigin vítateig.

„Við erum ennþá að glíma við pínu barnaskap (e. naivity), pínu barnaleg mistök sem við gerum. Einu færin sem þeir skapa eru í gegnum frekar barnaleg mistök hjá okkur. Við erum með unga leikmenn inn á og við verðum að vera með rými fyrir því að menn geti rekið sig á. Svo lengi sem menn læra af því þá er það bara gott. Mér leið ekkert æðislega í 0-1, en það kom heldur betur svar frá liðinu og við jöfnum bara mínútu seinna."

Hversu stoltur ertu af liðinu og þjálfarateyminu að ná þessum úrslitum?

„Ég er bara gríðarlega stoltur og Arnar sannar sig enn og aftur sem æðislegur þjálfari. Taktískt séð voru þetta tvo mismunandi lið, annað þeirra var tíu sinnum betra og það var Víkingur í þessum leik, það er ástæðan fyrir því að við hefðum getað unnið þennan leik stærra. Arnar sýnir gæði sín sem þjálfari þar. Við erum með frábæran leikmannahóp og það eru allir sem leggja sitt á vogarskálarnar, hvort sem þeir byrja inn á eða koma inn á. Ég er í skýjunum með hópinn og gríðarlega stoltur af þeim," segir Kári.

Kári hafnaði tilboði frá Norrköping í þjálfarann Arnar Gunnlaugsson fyrir tæpu ári síðan vegna þess að hann taldi hann verðmætari en það sem sænska félagið bauð Víkingi fyrir þjálfarann, ákvörðun sem hann sér væntanlega ekki eftir.

Næsti leikur Víkings í Sambandsdeildinni er heimaleikur gegn bosníska liðinu Borac Banja. Sá leikur fer fram á Kópavogsvelli eftir tvær vikur.
Sambandsdeild UEFA - deildarkeppni
Lið L U J T Mörk mun Stig
Athugasemdir