Kanadíska markamaskínan Cloé Lacasse, sem gerði frábæra hluti með ÍBV í íslenska boltanum, gerði eina mark leiksins í 1-0 sigri Benfica gegn Rosengård í D-riðli Meistaradeildar kvenna.
Cloé skoraði eftir 23 mínútur og voru heimakonur í Benfica óheppnar að bæta ekki við marki. Rosengård átti fínar rispur en tókst ekki að stela stigi. Guðrún Arnardóttir lék allan leikinn í vörninni hjá Rosengard.
Þetta eru fyrstu stig Benfica í erfiðum riðli og situr Rosengard eftir á botninum án stiga eftir þrjár umferðir. Stórveldi Barcelona og FC Bayern verma toppsætin.
Benfica 1 - 0 Rosengård
1-0 Cloe Lacasse ('23)
Þá gerði Juventus jafntefli við sterkt lið Arsenal í C-riðli þar sem Lineth Beerensteyn tók forystuna fyrir Juve snemma í síðari hálfleik.
Arsenal var betri aðilinn og tókst að jafna með marki frá Vivianne Miedema en lokatölur urðu 1-1.
Sara Björk Gunnarsdóttir var ekki í leikmannahópi Juve. Líklegt er að hún sé að glíma við meiðsli eða veikindi.
Arsenal er á toppi riðilsins með 7 stig og Juve í öðru sæti með 5 stig. Stórveldi Lyon fylgir fast á eftir með 4 stig.
Juventus 1 - 1 Arsenal
1-0 Lineth Beerensteyn ('52)
1-1 Vivianne Miedema ('61)