
„Tímabilið leggst vel í okkur og menn orðnir spenntir að keyra þetta af stað," segir Ólafur Hrannar Kristjánsson, þjálfari Leiknis, í samtali við Fótbolta.net.
Leikni er spáð níunda sæti í spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina.
Leikni er spáð níunda sæti í spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina.
„Spáin kemur svo sem ekkert á óvart, við höfum verið frekar misjafnir í þeim leikjum sem við höfum spilað á undirbúningstímabilinu. Höfum átt arfaslaka frammistöðu og svo aðrar góðar."
Eitthvað sem við viljum taka með okkur
Óli Hrannar sneri aftur í Leikni á miðju síðasta tímabili þegar hann tók við liðinu af Vigfúsi Arnari Jósepssyni. Leiknismenn byrjuðu síðasta tímabil mjög erfiðlega en svo gekk betur.
„Síðasta tímabil var að okkar mati heilt yfir gott eftir að við komum inn, þar sem við töpum ekki í síðustu átta leikjunum og það er eitthvað sem við viljum reyna að taka með okkur inn í þetta tímabil," segir Óli en hvernig var fyrir hann að snúa aftur í Breiðholtið?
„Það var fyrst og fremst skemmtilegt að fá tækifæri til að þjálfa minn uppeldisklúbb og mitt félag. Við vissum að það voru mikil gæði í hópnum og miklir möguleikar á að spila góðan fótbolta. Okkar helsta markmið var að fá leikmenn til að njóta leiksins og spila fyrir hvorn annan."
Náð í mjög flotta stráka
Óli skrifaði undir áframhaldandi samning eftir síðasta tímabil og segir hann að það hafi gengið vel í vetur.
„Veturinn hefur gengið vel, við höfum náð að gefa mörgum leikmönnum spilmínútur og haldið áfram að vinna í þeim hlutum sem við viljum bæta og hlutum sem við vorum orðnir fínir í," segir þjálfarinn.
Það hafa orðið nokkrar breytingar á hópnum hjá Breiðhyltingum.
„Það eru búnar að vera miklar breytingar á hópnum og við höfum náð í mjög flotta stráka í staðinn. Svo eru ungu strákarnir orðnir árinu eldri og við vonumst til að þeir grípi tækifærin þegar þau koma. Staðan á hópnum er fín en við vorum að missa Karan í erfið meiðsli sem eru gríðarlega vonbrigði fyrir okkur og Karan sjálfan. En við erum svosem ekki alveg búnir að útiloka að styrkja okkur fyrir gluggalok."
Tökum aftur spjallið eftir þá
Það má svo sannarlega búast við spennandi Lengjudeild í sumar.
„Ég tel að deildin hafi sjaldan verið jafnari, mikið af jöfnum liðum og ég held að þetta geti orðið þéttur pakki langt inn í tímabil," segir Óli en hver eru markmiðin fyrir komandi keppnistímabil?
„Við erum helvíti boring og erum í klisjutali. Við erum að reyna styrkja okkur eitthvað fyrir lok gluggans. Við erum með markmið innan hópsins og þurfum að vera einbeittir á að missa ekki sjónar af því. Það er mjög misjafnt hvernig hópar tækla mótlæti og jafnvel meðbyr í byrjun móts, svo við erum búnir að setja okkur markmið fyrir fyrstu fjóra leikina og tökum aftur spjallið eftir þá."
Eitthvað að lokum?
„Við viljum hvetja Leiknisfólk til að mæta á völlinn og sýna strákunum stuðning. Leiknir er aldrei sterkara en þegar allir róa í sömu átt. Byrjum gleðina á stuðningsmannakvöldi í kvöld, 25. apríl," sagði Óli Hrannar að lokum.
Athugasemdir