Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   fim 25. maí 2023 20:58
Brynjar Ingi Erluson
England: Man Utd í Meistaradeildina (Staðfest)
Manchester United spilar í deild þeirra bestu á næsta tímabili
Manchester United spilar í deild þeirra bestu á næsta tímabili
Mynd: EPA
Leikmenn Chelsea voru niðurlútir og ekki í fyrsta sinn á tímabilinu
Leikmenn Chelsea voru niðurlútir og ekki í fyrsta sinn á tímabilinu
Mynd: EPA
Manchester Utd 4 - 1 Chelsea
1-0 Casemiro ('6 )
2-0 Anthony Martial ('45 )
3-0 Bruno Fernandes ('73 , víti)
4-0 Marcus Rashford ('78 )
4-1 Joao Felix ('89 )

Manchester United spilar í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð eftir að liðið vann Chelsea, 4-1, á Old Trafford í kvöld. Liverpool mun spila í Evrópudeildinni.

Úkraínski leikmaðurinn Mykhailo Mudryk fékk dauðafæri til að taka forystuna fyrir Chelsea á 5. mínútu er hann fékk boltann inn í teig United en hann hitti boltann illa. Táknrænt fyrir tímabilið sem Chelsea er að eiga.

Aðeins mínútu síðar fékk United aukaspyrnu á vinstri vængnum og sparkaði Christian Eriksen boltanum inn í teiginn og beint á kollinn á Casemiro sem stýrði boltanum í netið.

Chelsea fékk nokkur góð færi til að jafna metin. Kai Havertz stangaði boltann framhjá og þá skaut Conor Gallagher boltanum framhjá úr dauðafæri.

United refsaði seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Casemiro átti konfektsendingu inn í teiginn á Jadon Sancho sem lagði boltann á fjærstöngina og þar var Martial klár í að pota boltanum í netið.

Bruno Fernandes var nálægt þriðja markinu í byrjun síðari hálfleiks en skot hans hafnaði í stöng. Hann bætti upp fyrir það þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Wesley Fofana braut á Fernandes í teignum og skoraði Portúgalinn úr vítaspyrnunni.

Marcus Rashford, sem kom inn af bekknum fyrir meiddan Anthony í fyrri hálfleiknum, kláraði Chelsea á 78. mínútu með góðu marki og gulltryggði Meistaradeildarsætið. Varamaðurinn Joao Felix gerði eina mark Chelsea undir lok leiksins.

Man Utd er með 72 stig í 3. sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Newcastle sem er í fjórða sætinu. Liverpool mun spila í Evrópudeildinni á næsta tímabili og er liðið búið að tryggja sér 5. sætið. Chelsea er hins vegar í 12. sætinu með 43 stig.
Athugasemdir
banner
banner