Coventry 1 - 1 Huddersfield
1-0 Yasin Ayari ('27)
1-1 Michal Helik ('94)
Coventry tók á móti Huddersfield í eina leik kvöldsins í ensku Championship deildinni.
Heimamenn í Coventry voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og verðskulduðu að leiða með eins marks forystu í leikhlé, eftir að Svíinn efnilegi Yasin Ayari kom boltanum í netið á 27. mínútu.
Ayari er 19 ára gamall og er samningsbundinn Brighton en leikur með Coventry á láni. Hann er uppalinn hjá AIK og leikur sem miðjumaður, en Brighton fékk hann til sín í janúar síðastliðnum.
Ayari hefur komið við sögu í öllum leikjum Coventry síðan hann gekk til liðs við félagið.
Síðari hálfleikurinn var jafnari þar sem gestirnir frá Huddersfield ógnuðu þó ekki mikið allt þar til í blálokin, þegar pólski varnarmaðurinn Michal Helik gerði jöfnunarmark og tryggði gestunum stig.
Coventry er með 8 stig eftir 8 umferðir og er Huddersfield með 9 stig.