Það fóru fjórir leikir fram í undankeppni Suður-Ameríkuþjóða fyrir HM í nótt, þar sem ríkjandi heimsmeistarar Argentínu tóku á móti nágrönnum sínum og erkifjendum frá Brasilíu.
Þar mættust nokkrar af skærustu stjörnum fótboltaheimsins í afar áhugaverðum slag þar sem færanýtingin var í hæsta gæðaflokki.
Heimamenn í liði Argentínu tóku forystuna snemma leiks þegar Julián Alvarez var heppinn að sleppa einn í gegn á milli brasilísku miðvarðanna Marquinhos og Murillo.
Marquinhos og Murillo náðu báðir að setja lappir í boltann en hann endaði á að skoppa beint fyrir Alvarez sem lét ekki bjóða sér dauðafærið tvisvar. Staðan orðin 1-0 á fjórðu mínútu.
Enzo Fernández tvöfaldaði forystu Argentínumanna tæpum tíu mínútum síðar eftir skelfilegan varnarleik Brasilíu og þá sérstaklega bakvarðarins Guilherme Arana sem spilaði Fernández réttstæðan.
Matheus Cunha nýtti sér svo varnarmistök hjá Cristian Romero til að minnka muninn á 26. mínútu. Cunha gerði mjög vel að skora úr erfiðu færi en þetta reyndist eina marktilraun Brasilíu í fyrri hálfleiknum.
Argentínumenn voru sterkari en sköpuðu sér ekki mikið af færum. Þeim tókst þó að skora nánast úr hverju einasta færi og var Alexis Mac Allister búinn að setja þriðja mark heimamanna á 37. mínútu, eftir frábæra sendingu frá Fernández.
Staðan var 3-1 í hálfleik og gerðu Brassar þrefalda skiptingu í leikhlé, þar sem Endrick, Joao Gomes og Leo Ortiz komu inn af bekknum en ekki skánaði staðan. Argentína stjórnaði áfram gangi mála á meðan Brasilíu tókst ekki að skapa sér færi.
Giuliano Simeone kom inn af bekknum og innsiglaði sigur heimsmeistaranna skömmu síðar eftir auðvelda skyndisókn þar sem Nicolas Tagliafico gerði vel að koma boltanum á Simeone sem skoraði frábært mark úr erfiðu færi.
Brasilía ógnaði aldrei að minnka muninn og niðurstaðan fyllilega verðskuldaður 4-1 sigur Argentínu sem er búin að tryggja sér sæti á HM á næsta ári.
Argentína er með 31 stig eftir 14 umferðir í undankeppninni, tíu stigum meira en Brasilía.
Lautaro Martínez, Lionel Messi og Paulo Dybala voru allir fjarverandi úr leikmannahópi Argentínu vegna meiðsla.
Þá fóru þrír aðrir leikir fram í nótt þar sem Síle og Ekvador gerðu markalaust jafntefli á meðan Paragvæ kom til baka og náði jafntefli gegn Kólumbíu.
Luis Díaz skoraði og lagði upp fyrir Jhon Durán til að koma Kólumbíu í 2-0 en lokatölur urðu 2-2. Julio Enciso sem leikur á láni hjá Ipswich gerði jöfnunarmark Paragvæ.
Venesúela lagði að lokum Perú að velli og skýst þannig uppfyrir Bólivíu og í umspilssæti undandeildarinnar. Gamla kempan Salomon Rondon skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu.
Argentína 4 - 1 Brasilía
1-0 Julian Alvarez ('4)
2-0 Enzo Fernandez ('12)
2-1 Matheus Cunha ('26)
3-1 Alexis Mac Allister ('37)
4-1 Giuliano Simeone ('71)
Kólumbía 2 - 2 Paragvæ
1-0 Luis Diaz ('1)
2-0 Jhon Duran ('13)
2-1 Junior Alonso ('45+4)
2-2 Julio Enciso ('62)
Venesúela 1 - 0 Perú
1-0 Salomon Rondon ('41, víti)
Síle 0 - 0 Ekvador
Athugasemdir