![Lengjudeildin](/images/leng_150x150.png)
„Þetta var ekki auðvelt. Þetta voru svakalegar aðstæður að spila í. Þetta snýst um að gera það sem þarf til að vinna leikinn," sagði Dean Martin, þjálfari Selfoss, eftir 1-3 sigur í nágrannaslag gegn Ægi í Lengjudeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Ægir 1 - 3 Selfoss
Þetta er í fyrsta sinn síðan 1999 þar sem Selfoss kemur í heimsókn í Þorlákshöfn og spilar þar. „Þetta er fínasti völlur en þetta hefði verið mun skemmtilegri leikur ef það hefði ekki verið svona mikill vindur. Við gerðum nóg."
Vindurinn hafði mikil áhrif á leikinn og það var erfitt að spila fótbolta í Þorlákshöfn í kvöld.
„Ég er ekki viss um að unga kynslóðin sé vön því að spila í vindi því það eru svo mörg fótboltahús á Íslandi núna. Þegar það er smá vindur þá færa sig allir inn í hús. Þetta sýnir að það er mikilvægt að vera úti líka og venjast því."
„Við sendum boltann betur í seinni hálfleik og okkur tókst að búa til færi," sagði Deano en hann var á því að Selfyssingar hefðu aðlagað sinn leikstíl að aðstæðunum betur í seinni hálfleik.
Við verðum að halda áfram með lífið
Í vikunni var rætt mikið um síðasta leik hjá Selfoss en þar fengu tveir leikmenn liðsins að líta rauða spjaldið í 1-2 tapi gegn Fjölni. Þorlákur Breki Þ. Baxter fékk tvö mjög klaufaleg gul spjöld eftir tíu mínútur í seinni hálfleik og fékk Gonzalo Zamorano að líta rauða spjaldið í uppbótartíma fyrir að hrækja á andstæðing, Dag Inga Axelsson; alls ekki fallegt það.
Báðir tóku þeir út leikbann í kvöld, en þeir fengu einn leik í bann. Þjálfari Selfyssinga var spurður út í það hvort hann hefði rætt við leikmenn sína eftir leikinn um að svona væri ekki boðlegt, þá kannski sérstaklega ekki að hrækja á andstæðing.
„Við getum ekki breytt því sem gerðist. Þeir eru búnir að fá bann, búnir að taka út bann og þá er málið dautt. Við getum ekki grenjað yfir þessu alla daga. Við verðum að halda áfram með lífið. Þetta voru mistök en við stöndum með okkar mönnum. Áfram með lífið og áfram Selfoss."
Selfoss er með sex stig eftir fjóra leiki og er um miðja deild. Dean segir mikilvægt að taka einn leik í einu en hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir