ÍBV heimsótti KR í dag á Alvogen-völlinn og töpuðu sannfærandi 4-1 í 18. umferð Pepsí-deildar karla. Kristján Guðmundsson þjálfari Eyjamanna sagði að þeir hefðu spilað illa og að KR hafi sýnt í dag að það væri hægt að taka þá í gegn.
Lestu um leikinn: KR 4 - 1 ÍBV
„Mér fannst liðið spila illa, í upphafi leiksins gáfum við KR færi á okkur og sýndum við merki um að hægt væri að taka okkur í gegn og KR gerðu það í dag. Við vorum alltof passívir og hefðum þurft að vera miklu grimmari."
KR-ingar fengu tvær vítaspyrnur og telur Kristján að fyrra vítið hafi verið rangt en hann sagði þó að liðið bjóði uppá það með að vera renna sér inni í teig.
„Mér sýnist nú fyrra vítið sé rangt en við bjóðum uppá það með að vera renna okkur inni í teig, við eigum ekki að vera gera þau mistök."
ÍBV er með 22 stig, 6 stigum frá fallsæti og Kristján sagði að liðið hefði borið það merki að þeir héldu að þeir væru öruggir í dag og að nú þyrftu þeir að gíra sig upp í síðustu 4 leiki deildarinnar.
„Við duttum í þennan doða sem fylgja þessum liðum sem ná 22 stigum og telja sig vera örugg í deildinni. Þá dettur fókusinn burt og það virtist gerast hjá okkur í dag. Nú þurfum við allir að lýta í eigin barm og laga það fyrir þessa fjóra leiki sem eftir eru.
Athugasemdir






















