Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 26. september 2022 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mancini hás eftir lokakaflann: Fáránlegt að kveljast svona
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Ítalska landsliðið lagði það ungverska að velli þegar liðin mættust í úrslitaleik um toppsæti síns riðils í ÞJóðadeildinni í kvöld.


Ítalir, sem misstu óvænt af sæti á HM í Katar, eru því komnir í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar í annað sinn eftir að hafa hreppt bronsið í síðustu keppni.

Roberto Mancini landsliðsþjálfari tefldi fram ungu byrjunarliði gegn Ungverjum þar sem Wilfried Gnonto, 18 ára, og Giacomo Raspadori, 22, leiddu sóknarlínuna.

„Þetta var erfiður leikur en við spiluðum vel allt þar til í lokin. Síðustu 20 mínúturnar voru lélegar eftir að við höfðum lagt svo mikla vinnu í að taka forystuna og halda henni. Við kvöldumst alltof mikið á lokakaflanum og það er eitthvað sem við þurfum að bæta, við verðum að stjórna leikjum í 90 mínútur ekki bara 70 mínútur," sagði rámur Mancini á fréttamannafundi að leikslokum.

„Það er fáránlegt að kveljast síðustu 20 mínúturnar í staðinn fyrir að sækja og leita að þriðja markinu. Ég er svona hás vegna þess að ég öskraði svo mikið á lokakaflanum...

„Ég er mjög ánægður með strákana. Ég er búinn að vera að byggja þetta landslið í nokkur ár og er spenntur fyrir framtíðinni. Við byrjuðum með tvo unga stráka í sóknarlínunni í kvöld, ef þeir halda áfram að spila og æfa svona vel eiga þeir eftir að verða banvænir."

Þá var hinn 23 ára gamli Gianluigi 'Gigio' Donnarumma meðal bestu leikmanna vallarins. Hann varði nokkur dauðafæri frá Ungverjum og lítur út fyrir að vera orðinn einn af bestu markvörðum heims.

„Gigio stóð sig frábærlega, það sést langar leiðir að hann er aðalmarkvörðurinn hjá PSG. Hann er með sjálfstraustið í botni."

Það eru fjögur lið sem taka þátt í úrslitakeppninni sem fer fram í Hollandi á næsta ári. Króatía er búin að tryggja sig í úrslitakeppnina ásamt Hollandi og Ítalíu en Spánn og Portúgal mætast í úrslitaleik um síðasta lausa sætið.

Sjáðu þrefalda markvörslu Donnarumma


Athugasemdir
banner
banner