Tottenham og Newcastle hafa áhuga á Grealish - Newcastle bjartsýnt á að fá Guehi - Elanga í læknisskoðun
banner
   mán 26. október 2020 22:44
Ívan Guðjón Baldursson
Harry Kane: Getum gert stóra hluti með þennan hóp
Harry Kane var valinn maður leiksins er Tottenham lagði Burnley að velli með naumindum í ensku úrvalsdeildinni fyrr í kvöld.

Kane barðist fyrir lið sitt og lagði eina mark leiksins upp fyrir góðvin sinn Son Heung-min. Þeir tveir hafa verið afar duglegir við að leggja upp fyrir hvorn annan og eru mögulega eitt af bestu sóknarpörum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

„Þetta er mjög samheldinn hópur þar sem margir hérna hafa spilað saman í fjögur eða fimm ár. Það bættust frábærir leikmenn við í sumar og við vitum að við getum gert stóra hluti með þennan leikmannahóp. Það er mikilvægt að berjast af öllum kröftum í svona leikjum eins og í kvöld til að sækja mikilvæg stig sem telja svo í lok tímabils," sagði Kane þegar hann var spurður út í liðsheildina og samstarf sitt við Son eftir sigurinn.

„Við Sonny höfum myndað fínasta samstarf í gegnum árin og vonandi höldum við áfram að gera vel. Ég held að við séum búnir að taka samstarfið á næsta stig, skilningurinn er orðinn meiri eftir að ég byrjaði að færa mig neðar á völlinn til að skapa pláss fyrir hlaupin hans Sonny innfyrir vörnina.

„Stoðsendingin sem ég gaf honum í dag var ekki stórkostleg en boltinn féll vel fyrir hann og við unnum. 0-1 sigur á útivelli gegn Burnley eru stórkostleg úrslit, það er ekkert grín að koma hingað."


Kane var spurður hvort Tottenham geti gert atlögu að úrvalsdeildartitlinum.

„Það er ennþá of snemmt til að segja til um það. Ég veit að það er klisjukennt en við tökum bara einn leik í einu."

Son var einnig hress að leikslokum og reyndi hann að trufla viðtalið við Kane með því að banka á glerið á bak við hann.


Athugasemdir