Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   mán 27. febrúar 2023 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Agnelli: Evrópska Ofurdeildin er þegar til

Andrea Agnelli, fyrrum forseti Juventus sem sagði af sér í nóvember eftir fjársvikaskandalinn, hefur tjáð sig um fyrirhugaða evrópska Ofurdeild sem Juventus og fleiri félög höfðu mikinn áhuga á að setja á laggirnar.


Þau áform gengu ekki upp þar sem evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, og félagslið sem ekki var boðið í Ofurdeildina mótmæltu harðlega. Sömuleiðis bárust hörð mótmæli frá stuðningsmönnum þeirra félaga sem hugðust stofna deildina.

„Þetta er fyndið því við erum nú þegar með eina Ofurdeild. Enska úrvalsdeildin fær 4 milljarða evra á ári í sjónvarpstekjur - það er tvöfalt meira heldur en Spánn, Þýskaland eða Ítalía geta fengið. Til samanburðar fær hollenska deildin 100 milljónir í tekjur. Þetta er ekki samanburðarhæft, með þessu áframhaldi munu ensku félögin kaupa alla bestu leikmennina og vinna allar keppnir sem eru í boði," segir Agnelli.

„Við vorum öll tilbúin fyrir nýtt og endurbætt keppniskerfi í evrópskum fótbolta árið 2019 en Aleksander Ceferin (forseti UEFA) bakkaði út á síðustu stundu því hann var undir mikilli pressu frá miðlungsstærðar félagsliðum víða um Evrópu. Toppfélögin voru öll tilbúin til að taka næsta skref en Ceferin stöðvaði það. Þetta skref hefði endurbætt evrópska fótboltakerfið til muna. Eftir þessa ákvörðun UEFA ákváðu toppfélögin að skipuleggja sína eigin evrópska Ofurdeild sem er enn á lífi. Ofurdeildarmálinu hefur verið áfrýjað til Evrópudómstólsins og mun sá dómstóll eiga lokaorðin.

„Það er sorglegt að við höfum tapað þessu stríði innan UEFA vegna þess að núverandi kerfi getur ekki tryggt framtíð ýmissa félagsliða á borð við Ajax, Anderlecht, Celtic, Benfica, Panathinaikos og Rauðu stjörnuna í Belgrad. Deildakerfin í þessum löndum eru alltof tekjulág til að þessi félög geti stækkað."

Agnelli telur að einokun UEFA á evrópskum fótbolta verði að enda til að fótboltinn geti vaxið enn frekar. „Það er galið að félög eigi í hættu á að fara í gjaldþrot ef þeim mistekst að tryggja sér þátttökurétt í Evrópukeppni eitt árið. Ég hef verið í fótboltaheiminum í 13 ár og veit hvernig þetta virkar. Að mínu mati er kominn tími á sanngjarnari deildakerfi - deildakerfi sem einblínir ekki á hagnað heldur að öll liðin í deildinni séu samkeppnishæf og á svipuðu getustigi. Það ríkir alltof mikill ójöfnuður í deildakerfunum í Evrópu í dag.

„Ég hef samskipti við mörg félög og ég veit að það eru margir sammála mér í þessu, en ef þú talar við mig þá áttu í hættu á að fá sektir og bönn frá UEFA. Ef fótboltafélag segist vilja taka þátt í betra og sanngjarnara deildakerfi þá verður það sett í skammarkrókinn af UEFA. Það er nákvæmlega það sem gerðist með Juventus."

Auk Juventus eru Real Madrid og Barcelona tvö félög sem vilja enn setja evrópska Ofurdeild á laggirnar en öll önnur stofnfélög hafa dregið aðild sína til baka eftir hótanir frá UEFA.

„Ég er mjög forvitinn að fylgjast með niðurstöðu Íþróttadómstólsins. Ætlar dómstóllinn að viðhalda einokunarstöðu UEFA á frjálsum evrópskum markaði? Fótbolti er ekki lengur lítill saklaus leikur, þetta er iðnaður sem veltur um 50 milljörðum evra á hverju ári.

„Finnst engum öðrum skrýtið að það séu alltaf sömu forsetar hjá UEFA og FIFA sem sjá um stóran hluta af þessum fjárhæðum? Það munu engar breytingar koma frá Ceferin eða Infantino, þeir munu gera allt í sínu valdi til að viðhalda fótboltaheiminum nákvæmlega eins og hann er. Þannig geta þeir grætt sem mest."


Athugasemdir
banner
banner
banner