Manchester United lét sér það nægja að fagna á vellinum eftir að hafa unnið deildabikarinn í gær. United fór með 2-0 sigur af hólmi gegn Newcastle í úrslitaleiknum.
Það var ekkert partý hjá leikmannahópi Man Utd í gærkvöldi. Leikmenn tóku flugið frá London til Manchester um kvöldið og fóru beint í að einbeita sér að næsta verkefni sem er gegn West Ham í FA-bikarnum á miðvikudag.
Leikmenn Man Utd voru mættir á æfingu í dag, 19 klukkustundum eftir sigurinn í úrslitaleiknum í gær. Þetta var fyrsti bikar United í tæp sex ár.
„Það eru engir frídagar," sagði bakvörðurinn Luke Shaw eftir leikinn í gær. United stefnir á að vinna FA-bikarinn, og allar aðrar keppnir á þessu tímabili. Leikmenn geta hvílt sig í sumar og fagnað þá.
„Það var ekki mikið um einhvern fögnuð í gær. Við vitum að verkefnið gegn West Ham verður erfitt en við erum með mikla einbeitingu á því núna. Við ætlum okkur að vinna FA-bikarinn."
Ten Hag er annar stjórinn í sögu Man Utd til að vinna titil á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu - hinn var Jose Mourinho - og það verður áhugavert að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.
Athugasemdir