Sigurður Heiðar Höskuldsson tók við sem aðstoðarþjálfari Vals eftir síðasta tímabil. Hann hafði þá verið aðalþjálfari Leiknis í Breiðholti um árabil.
Sigurður segir mikinn mun á því að vinna hjá Val og Leikni, en stærðarmunurinn á félögunum tveimur er svo sannarlega frekar stór.
Kröfurnar eru miklar í Val og nefndi þjálfarinn gott dæmi um það. „Þegar maður var Leikni var þetta eiginlega bara jákvætt og sérstaklega í byrjun, en um daginn töpuðum við einum leik fyrir Fjölni í janúar og þá spyr fólk: 'Hvernig getur þetta gerst?"
„Það er bara gaman, út af því er maður í þessu," sagði Siggi jafnframt en Valur ætlar sér aldrei neitt annað en að vinna alla titla og alla leiki.
Arnar Grétarsson tók við þjálfun Vals eftir síðustu leiktíð og fékk hann Sigurð með sér. Í útvarpsþættinum um liðna helgi ræddi Siggi meira um Val og starfið þar. Hann talaði þar um morgunæfingar og starfsteymið.
„Þetta er búið að vera frábært. Ég held að ég hafi verið búinn að undirbúa mig vel fyrir þessi skipti. Ég er virkilega ánægður með það hvernig þetta er að fara af stað og ég er mjög spenntur fyrir framhaldinu. Þetta er allt öðruvísi umhverfi, en það er líka fjölskyldustemning líkt og í Leikni."
Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Athugasemdir