Franski miðvörðurinn Presnel Kimpembe verður ekki meira með Paris Saint-Germain á þessari leiktíð en þetta staðfesti Cristophe Galtier, þjálfari liðsins, við fjölmiðla í gær.
Kimpembe, sem fór með franska landsliðinu á HM í Katar, var í byrjunarliði PSG í 3-0 sigrinum á Marseille í gær.
Hann meiddist á 15. mínútu leiksins og þurfti að fara á sjúkrabörum af velli en enginn leikmaður var nálægt honum þegar atvikið átti sér stað.
Frakkinn mun ekki spila meira með PSG á þessari leiktíð en óttast er að hann hafi slitið hásin.
„Kimpembe er því miður alvarlega meiddur og er frá út tímabilið. Hann finnur fyrir miklum sársauka í hásininni og við teljum að þetta sé alvarlegt,“ sagði Galtier eftir leik.
Varnarmaðurinn hefur komið við sögu í fimmtán leikjum á tímabilinu.
Athugasemdir