Fyrrum þýski landsliðsmaðurinn Jurgen Klinsmann hefur verið ráðinn sem nýr landsliðsþjálfari Suður-Kóreu en frá þessu var greint í morgun.
Portúgalinn Paulo Bento stýrði Suður-Kóreu á HM í Katar en lét af störfum eftir það mót.
Fótboltasambandið í Suður-Kóreu hefur síðustu vikur verið að leita að nýjum þjálfara og endaði sú leit á þýskri goðsögn.
Hinn 58 ára gamli Klinsmann skrifaði undir þriggja og hálfs árs samning. Hann hefur mikla reynslu úr landsliðsumhverfi en hann hefur stýrt bæði þýska landsliðinu og því bandaríska á sínum þjálfaraferli.
Hann kemur til með að stýra Suður-Kóreu á HM 2026 ef liðið kemst þangað. Hans fyrsti leikur verður gegn Kólumbíu í Ulsan þann 26. mars næstkomandi.
Athugasemdir