Chelsea borgaði metfé þegar félagið keypti Enzo Fernandez, miðjumann argentínska landsliðið, frá portúgalska stórveldinu Benfica.
Benfica hagnaðist mikið á sölunni, enda hafði félagið keypt leikmanninn aðeins sex mánuðum áður frá River Plate í Argentínu.
Enzo hefur þó ekki staðið undir væntingum á fyrstu vikunum hjá Chelsea og á liðið enn eftir að vinna leik frá komu hans til félagsins. Enzo hefur spilað allar mögulegar mínútur frá komunni en niðurstaðan eru tvö jafntefli og þrjú töp.
Enzo er miðjumaður en hjá Chelsea hefur hann verið að spila aftarlega á miðjunni. Tölfræðivefsíðan WhoScored birti gögn sem sýna að Enzo hefur ekki verið nægilega góður varnarlega frá komu sinni til Chelsea. Gögnin sýna fram á hversu auðvelt hefur verið fyrir andstæðinga að fara framhjá leikmanninum.
Ástæðan fyrir þessu er líklegast sú að Enzo er ekki að spila sína uppáhaldsstöðu á vellinum. Hann fékk meira frelsi hjá Benfica til að færa sig ofar á miðjuna á meðan liðsfélagi hans Florentino Luis sá um stærsta hluta varnarvinnunnar.
Chelsea hefur verið að nota Enzo í sama hlutverki og hann var í með argentínska landsliðinu á HM. Þar lék hann sem varnartengiliður og stóð sig með prýði - en hann virðist ekki vera vandanum vaxinn á stærsta sviði fótboltans þar sem hann mætir bestu leikmönnum heims í hverri viku.
Graham Potter, knattspyrnustjóri Chelsea, er að skoða mögulegar lausnir á þessum vanda og gæti endurkoma N'Golo Kante úr meiðslum haft úrslitaáhrif. Búist er við að Enzo geti orðið einn af bestu miðjumönnum deildarinnar fái hann aukið frelsi til að fara fram völlinn.