mán 27. febrúar 2023 20:01
Ívan Guðjón Baldursson
Mbappe getur samið við félög næsta janúar
Mynd: Getty Images

Franski miðillinn L'Equipe greinir frá því að franska stórstjarnan Kylian Mbappe getur samið við önnur félög frá næsta janúarglugga ef hann kýs ekki að framlengja samninginn við PSG um eitt ár.


Mbappe skrifaði undir samning við PSG í maí í fyrra sem gildir til sumarsins 2025. L'Equipe heldur því fram að samningurinn gildi í raun aðeins til 2024 og í honum sé ákvæði um eins árs framlengingu.

Mbappe hefur þó aðeins nokkra mánuði til að virkja þetta ákvæði, sem fellur úr gildi í júlí. Ef framherjinn knái framlengir ekki samninginn mun hann einungis eiga eitt ár eftir af samningi sínum við franska stórveldið og fær því leyfi til að hefja samningsviðræður við önnur félög strax í janúar.

PSG vinnur hörðum höndum að því að sannfæra Mbappe um að virkja ákvæðið, en ef það gerist ekki þá gæti leikmaðurinn verið seldur í sumar. PSG vill ekki missa einn verðmætasta leikmann heims frá sér á frjálsri sölu.

Mbappe er 24 ára gamall og þegar búinn að jafna markamet Edinson Cavani hjá PSG. Þessi franski heimsmeistari er því markahæsti leikmaður í sögu félagsins.

PSG vinnur einnig að samningsframlengingu við argentínska heimsmeistarann Lionel Messi.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner