Unglingalandsliðsmarkvörðurinn Adam Ingi Benediktsson stóð vaktina í markinu hjá sænska félaginu Gautaborg er liðið tapaði óvænt gegn GAIS í gær.
GAIS er í næst efstu deild Svíþjóðar á meðan Gautaborg er í efstu deild, en það er ekki spurt að því í bikarnum. GAIS fór með 2-1 sigur af hólmi í leiknum.
Pontus Dahlberg, aðalmarkvörður Gautaborgar, er að glíma við meiðsli og því stóð Adam í markinu, en hann átti mjög góðan leik þrátt fyrir tapið. Hann fékk hrós frá þjálfara sínum í fjölmiðlum að leik loknum.
„Mér fannst Adam spila mjög vel í dag... ég held að Adam geti sofið vel í kvöld en það á ekki við um hina í liðinu," sagði Mikael Stahre, þjálfari Gautaborgar, eftir leikinn.
Marcus Berg, ein helsta stjarna liðsins, hrósaði markverðinum unga einnig en Adam sjálfur gerir meiri kröfur á sjálfan sig.
„Mér fannst þetta alls ekki gott. Þú getur ekki verið ánægður með sjálfan þig þegar liðið þitt tapar. Ég verð að vera gagnrýninn á sjálfan mig. Þú getur alltaf gert betur. Ég mun klárlega ekki sofa vel," sagði Adam eftir leikinn.
Athugasemdir