Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
banner
   þri 27. september 2022 20:59
Brynjar Ingi Erluson
Karakterinn skilaði stigi í Albaníu
Ísland gerði jafntefli við Albaníu
Ísland gerði jafntefli við Albaníu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikael Neville Anderson skoraði jöfnunarmarkið
Mikael Neville Anderson skoraði jöfnunarmarkið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albanía 1 - 1 Ísland
1-0 Ermir Lenjani ('35 )
1-1 Mikael Anderson ('96 )
Rautt spjald: Aron Einar Gunnarsson (f), Ísland ('10) Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið gerði 1-1 jafntefli við Albaníu í lokaleiknum í B-deild Þjóðadeildarinnar í Tírana í kvöld. Ísland var manni færri eftir tíu mínútur en Mikael Neville Anderson sá til þess að tryggja stigið seint í uppbótartíma.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, var rekinn af velli eftir tíu mínútur eftir að hann togaði í framherja Albaníu fyrir framan teig íslenska liðsins. Dómarinn lét leikinn halda áfram en var síðan kallaður að VAR-skjánum og reif þá upp rauða spjaldið.

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari Íslands, neyddist til að gera taktíska breytingu og tók Jón Dag Þorsteinsson af velli og setti Daníel Leó Grétarsson inn í vörnina.

Albanía komst marki yfir á 35. mínútu. Heimamenn fengu allan tímann í heiminum til að athafna sig vinstra megin og kom glæsileg fyrirgjöf inn í teig, yfir Hörð Björgvin Magnússon og á Ermir Lenjani sem skallaði boltann í netið.

Íslenska liðið mætti mun ákveðnara til leiks í þeim síðari og fór að pressa heimamenn hærra upp völlinn. Arnar fékk ferskar lappir inná og gerði það gæfumuninn.

Hákon Arnar Haraldsson og Mikael Neville Anderson voru á meðal þeirra sem komu inná og komu þeir með mikla orku inn í leikinn.

Þegar komið var að uppbótartíma voru Albanir búnir með sínar skiptingar. Ardian Ismajli, leikmaður albanska liðsins, lá í jörðina og gat ekki haldið áfram og því jafnt í liðum.

Íslenska liðið nýtti sér það því þegar tæpar sex mínútur voru búnar af uppbótartímanum kom jöfnunarmarkið. Þórir Jóhann Helgason átti laglega sendingu á fjærstöngina þar sem Mikael Neville var mættur til að þruma honum í netið. Kjaftshögg fyrir heimamenn en verðskuldað hjá íslenska liðinu.

Lokatölur 1-1. Þetta þýðir að Ísland hafnar í 2. sæti riðilsins í B-deildinni. Nú er möguleiki á að komast inn í Þjóðadeildarumspilið eftir ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner