mið 27. október 2021 08:17
Elvar Geir Magnússon
Atvinnumaður kom út úr skápnum - „Hef falið hver ég er í raun og veru"
Josh Cavallo er eini starfandi atvinnumaðurinn í fótbolta sem er opinberlega samkynhneigður.
Josh Cavallo er eini starfandi atvinnumaðurinn í fótbolta sem er opinberlega samkynhneigður.
Mynd: Getty Images
Josh Cavallo er 21 árs gamall.
Josh Cavallo er 21 árs gamall.
Mynd: Getty Images
Miðjumaðurinn Josh Cavallo hefur sagt sögu sína í myndbandi sem félag hans, Adelaide United í áströlsku A-deildinni, birti á Twitter.

Cavallo hefur opinberað að hann sé samkynhneigður og er hann því eini starfandi atvinnumaður í fótbolta í dag sem hefur komið út úr skápnum, svo vitað sé.

Samkynhneigð í fótbolta hefur mikið verið í umræðunni en svo virðist sem erfitt sé fyrir leikmenn að koma út úr skápnum á meðan á ferli þeirra stendur.

Cavallo, sem er 21 árs gamall Ástrali, segir í myndbandinu: „Ég er loksins tilbúinn að tala um persónulegan hluti í mínu lífi. Það hefur verið ferðalag að komast að þessum punkti í lífinu en ég gæti ekki verið ánægðari með þá ákvörðun mína að stíga út. Ég hef verið að fela kynhneigð mína í yfir sex ár og ég er ánægður með að þurfa þess ekki lengur."

„Þið sem þekkið mig persónulega vitið að ég held mínu einkalífi fyrir mig. Þegar ég ólst upp þá fannst mér ég alltaf þurfa að vera í felum því ég skammaðist mín. Ég var hræddur um að geta ekki gert það sem ég elska og verið samkynhneigður. Ég faldi hver ég væri í raun og veru til að elta drauminn um að spila fótbolta en fá sanngjarna meðhöndlun."

„Að alast upp sem hommi og spila fótbolta voru tveir heimar sem hafa ekki mæst áður. Ég hef lifað mínu lífi teljandi það að þetta væri uræðuefni sem yrði aldrei rætt," segir Cavallo.

Ótrúlega fáir fótboltamenn hafa komið út skápnum. Sá þekktasti er Þjóðverjinn Thomas Hitzlsperger sem spilaði fyrir Aston Villa, Stuttgart, West Ham, Wolfsburg og Everton. Hann kom ekki út úr skápnum fyrr en ári eftir að hann lagði skóna á hilluna 2013.

Cavallo segist vita það að aðrir leikmenn sem séu samkynhneigðir séu „í felum" en hann vonist til þess að hann tilkynning geti hjálpað til við að breyta umhverfinu.

„Ég vil sýna að allir eru velkomnir í fótbolta. Það er sláandi að vita að það eru engir atvinnumenn sem hafa opinberlega stigið út úr skápnum, ekki bara í Ástralíu heldur um allan heim. Vonandi breytist þetta í náinni framtíð," segir Cavallo.

Ross Aloisi, aðstoðarþjálfari Adelaide United, er maðurinn sem Cavallo ræddi við áður en hann kom út úr skápnum.

„Áður en Josh talaði við mig var ljóst að hann bar sársaukafulla byrði með sér. Að sjá hann í dag, þegar búið er að létta þessu af honum, gerir mig svo stoltan af því hversu hugrakkur hann er. Andleg og líkamleg líðan Josh er okkur það mikilvægasta sem þjálfarar og liðsfélagar. Josh verður alltaf Josh í okkar augum," segir Aloisi.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner